148. löggjafarþing — 16. fundur,  24. jan. 2018.

störf þingsins.

[15:22]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Herra forseti. Það hefur verið hljótt um olíuleit á Drekasvæðinu sem og hugsanlega vinnslu þar. Þessi sýslan hefur verið gagnrýnd, enda ekki rúm fyrir jarðefnin í kolefnisbókhaldi jarðar. Kínverska félagið CNOOC og norska Petoro draga sig nú út úr rannsóknarleyfi til 12 ára og öllum frekari skyldum. Það er gott og jarðlífinu til framdráttar. Orkustofnun telur ekki að íslenski aðilinn Eykon geti staðið undir frekari umsvifum á svæðinu vegna smæðar. Fyrirtækið hyggur samt á að nota andmælarétt og jafnvel leita nýrra samstarfsaðila. Það telur stofnunin varla kleift samkvæmt leyfi og lögum.

Ég vil vekja á því athygli og hvetja þingmenn til að stuðla að því að Ísland verði raunverulega kolefnishlutlaust 2040 og fylgja staðreyndinni um að markmiðum Parísarsamkomulagsins verður ekki náð nema 2/3 þekktra jarðefniseldsneytisbirgða verði hlíft.

Í framhaldi af ræðu hv. síðasta ræðumanns vil ég segja að United Silicon er gjaldþrota með tilheyrandi fjárhagslegu tjóni fyrir banka, lífeyrissjóði og Reykjanesbæ en samtímis er ljóst að reyk-, ryk- og gasmengun hrjáir ekki íbúa sveitarfélagsins á meðan. Arion banki stefnir að því að ljúka viðgerðum á þessari ósamstæðu verksmiðju og hefja aftur starfsemi og þá með nýjum eigendum. Kannski tekst það, kannski ekki. Hitt er ljóst, að tryggja verður að úrbætur á verksmiðjunni verði teknar út af óháðum sérfræðingum, að mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar verði endurskoðað ásamt starfsleyfi og að allar áætlanir um orkufrekan iðnað í Helguvík verði endurskoðaðar frá grunni. Hyggjum að því öll saman.