148. löggjafarþing — 16. fundur,  24. jan. 2018.

störf þingsins.

[15:31]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Óla Birni Kárasyni fyrir ótrúlega fallegt innlegg í umræðuna áðan. Ég þurfti eiginlega að klípa mig tvisvar til að vera viss um að þetta kæmi úr munni Sjálfstæðismanns, ég verð að viðurkenna það, en mikið ofboðslega þótti mér vænt um þessi orð. Þau vekja mér þá von að það eigi virkilega, í alvörunni, að standa saman að því að bæta kjör öryrkja í landinu.

Beint í framhaldinu er ástæða til að spyrja sig um það sem oft hefur verið í umræðunni: Út af hverju fjölgar öryrkjum svona mjög? Hvað getum við gert í þeim efnum?

Staðreyndin er sú að stóran hluta af þeirri fjölgun má rekja til ungra einstaklinga sem eru haldnir geðvanda sem aftur má rekja beint til fíknivanda. Það er sú umræða sem ég hef verið með í þessari pontu síðustu tvo daga og vil hnykkja á og halda áfram. Fíkn er dauðans alvara, við getum gert svo margt annað en að tjalda til einnar nætur, við getum horft til framtíðar. Við getum gert það saman og ég vil trúa því, í alvöru, að við 63 getum lyft því grettistaki til framtíðar sem alla dreymir í rauninni um.

Við eigum sérfræðinga, snillinga, sem ég hef áður talað um. Ég hef verið í viðræðum við þá einstaklinga sem allir eru tilbúnir að koma að því að hjálpa fólkinu okkar. Og núna, eftir að hafa heyrt í hv. þm. Óla Birni Kárasyni, er ég full af bjartsýni og brosi.