148. löggjafarþing — 16. fundur,  24. jan. 2018.

störf þingsins.

[15:33]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Í upphafi vil ég taka undir með hv. þm. Ingu Sæland sem talaði um að við þyrftum að huga betur að málefnum öryrkja og þá út frá mörgum hliðum. Það liggur auðvitað fyrir að fara þarf í endurskoðun á almannatryggingakerfinu til að tryggja betur kjör þeirra sem eiga þar undir. Ég tek undir þau sjónarmið sem hafa komið fram hvað það varðar. Eins er það umhugsunarefni, eins og hv. þm. Inga Sæland nefndi, hver skýringin er á fjölguninni sem hefur verið í hópi þeirra sem þurfa að reiða sig á greiðslur úr örorkulífeyrishluta almannatryggingakerfisins. Það er gríðarlega mikilvægt þjóðfélagslegt verkefni að velta fyrir okkur hvernig við getum stuðlað að því að þær ástæður sem hún nefndi leiði ekki til þess að fólk detti út af vinnumarkaði og eigi möguleika á því að komast inn aftur þegar það hefur einu sinni dottið út.

Þetta er margþætt verkefni. Endurskoðun örorkulífeyriskerfisins, uppbygging bótakerfisins og annað þess háttar eru aðkallandi mál sem eru á verkefnaskrá hjá ríkisstjórninni. En ég held að ánægjulegt væri og mikilvægt fyrir okkur að finna í sameiningu fleti á því hvernig við sem þing og stjórnvöld getum beitt okkur fyrir fyrirbyggjandi aðgerðum til þess að koma í veg fyrir að fleira ungt fólk lendi í slíkri stöðu, og eins að greiða leiðina til baka á vinnumarkaðinn og til (Forseti hringir.) heilbrigðara lífs fyrir þá sem eiga í hlut. Ég held að það sé gríðarlega mikilvægt.