148. löggjafarþing — 16. fundur,  24. jan. 2018.

ábendingar í rannsóknarskýrslum Alþingis.

78. mál
[15:49]
Horfa

Smári McCarthy (P) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég er ósammála hv. þm. Birgi Ármannssyni. Ég tel að hæstv. ráðherra sé ekki vitlaus heldur viti hann þvert á móti nákvæmlega hvað hann er að gera. Það er alveg ljóst að ég hef aldrei séð slíka andstöðu við skýrslubeiðni áður. Ég hef ekki verið lengi á þingi en þetta er heldur meiri andstaða en gengur og gerist við einfaldri beiðni og hún kemur ekki til óvænt, sem sér í lagi má greina af því hversu margir hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa komið upp í mótmælaskyni við hana. Það er greinilegt að skýrslubeiðnin snertir einhverja taug. Kannski er það sú taug sem varðar það að við höfum í mörg ár eftir að þessar fínu skýrslur komu fram reynt að gera upp töluvert mikið hrun sem varð hér en það hefur ekki enn þá verið gerð nein greining á því hvort uppgjörið hafi í rauninni farið fram. Hér er nokkuð hófleg tillaga um að byrja það ferli. Ég held að það ætti að verða við þeirri beiðni.