148. löggjafarþing — 16. fundur,  24. jan. 2018.

ábendingar í rannsóknarskýrslum Alþingis.

78. mál
[15:52]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Mér þykja þetta hinar áhugaverðustu umræður, verð ég að segja. Ég ætla ekki að endurtaka það sem hv. þm. Andrés Ingi Jónsson fór yfir en það kemur mér á óvart að hér séu yfir höfuð umræður um skýrslubeiðni, hvað þá að það stefni í að einhverjir þingmenn greiði atkvæði gegn henni. Reyndar samkvæmt hefðum í samskiptum framkvæmdarvalds og löggjafarvalds verður hún væntanlega felld.

En ég hef hins vegar skynjað í orðum þeirra hv. þingmanna Sjálfstæðisflokksins sem hér hafa talað að það sé einhver þörf á því að skoða þessi mál. Eftir að hafa hlýtt á þessar stuttu ræður sýnist mér þörfin vera ríkari en mér fannst hún vera þegar við gengum inn í þingsal í dag. Því vil ég eins og hv. þm. Andrés Ingi Jónsson lýsa því yfir að verði þessi skýrslubeiðni felld þykir mér ærið tilefni til að gera þá eitthvað, hugsanlega sameiginlega með öllum flokkum eða hvernig sem það yrði. Ég vænti þess þá líka að það verði stuðningur við það úr öllum flokkum.