148. löggjafarþing — 16. fundur,  24. jan. 2018.

fæðingar- og foreldraorlof.

98. mál
[16:09]
Horfa

Halldóra Mogensen (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að fara yfir þetta frumvarp og leggja það fram. Ég styð það heils hugar að fæðingarorlof sé lengt, enda er það allt of stutt eins og staðan er í dag.

Ég velti þessu fyrir mér út frá einstæðum foreldrum, sem hv. þingmaður nefndi. Staðan er sú í dag að það er verið að mismuna börnum eftir því hvort þau eiga eitt foreldri eða tvö. Það er ekkert tekið á því. Ég sé það sem einstætt foreldri að einstætt foreldri fær einn mánuð í viðbót, sjö í staðinn fyrir sex. En þekkir hv. þingmaður rökin fyrir þessari niðurstöðu í vinnuhópnum, af hverju skiptingin er fimm, fimm, tveir mánuðir frekar en t.d. þrír, þrír og sex eða eitthvað þannig sem myndi gera að verkum að börn einstæðra foreldra fengju lengri tíma með foreldrum sínum?