148. löggjafarþing — 16. fundur,  24. jan. 2018.

fæðingar- og foreldraorlof.

98. mál
[16:10]
Horfa

Flm. (Logi Einarsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Já, fyrir því eru auðvitað jafnréttisrök. Báðir foreldrar eiga auðvitað að sinna börnum sínum. Það kemur í ljós þegar við berum okkur saman við Norðurlöndin að þeir sem eru lengst komnir eins og Svíar hafa tekið upp þessa skiptingu og skilyrðingu. Ég skil hins vegar vangaveltur hv. þingmanns og tel að það eigi bara að leysa það með því að við ákveðnar aðstæður þurfi að taka tillit til einstæðs foreldris þar sem barn nýtur ekki annars foreldris. En það er oft þannig með einstætt foreldri að hitt foreldrið á og vill og ætti auðvitað líka að sinna barninu sínu. Ég held að ef við gerðum þetta alveg frjálst myndi það eins og ég sagði áðan leiða til þess að tekjulægri einstaklingurinn tæki miklu stærri hluta af orlofinu. Í okkar heimi, því miður, yrði karlinn oftar úti á vinnumarkaðnum, barnið færi á mis við sinn rétt og konan líka.