148. löggjafarþing — 16. fundur,  24. jan. 2018.

fæðingar- og foreldraorlof.

98. mál
[16:37]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vona að hv. þm. Loga Einarssyni endist nú aldur til að sjá sem mestar framfarir í íslensku samfélagi og að hann sé ekkert að fara að missa af þeim. Það er alveg rétt hjá honum að það er lykilatriði að báðir foreldrar séu þannig settir að þeir geti tekið fæðingarorlof, en það breytir ekki hinu réttindamálinu gagnvart barninu. Auðvitað eiga foreldrarnir líka rétt og það er enginn ágreiningur um það.

Varðandi það að leysa alla hnúta í einu er alveg rétt hjá þingmanninum að það er ekki nauðsynlegt að gera allt í einu. En þegar svo vill til að við erum með fyrir framan okkur annars vegar stjórnarsáttmála og áform um að taka á málum og hins vegar fyrirliggjandi þingmannafrumvarp um mál tengd þessu þykir mér ekkert óeðlilegt að nefndin reyni að skoða málin í einhverju samhengi.