148. löggjafarþing — 16. fundur,  24. jan. 2018.

fæðingar- og foreldraorlof.

98. mál
[16:40]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það skal enginn efast um að hv. þm. Logi Einarsson er ástríðufullur vinstri maður. Ég vona að við getum flest á einhverjum tímapunkti í lífinu og í þeim framförum sem við tökum á æviskeiðinu litið á okkur sem slík. En það kannski er útópísk bjartsýni, eins og þingmaðurinn kom óbeint inn á.

Ég held hins vegar að við megum ekki gleyma því að í gegnum tíðina hafa stóru sigrarnir í afar mörgum réttindamálum íslensku þjóðarinnar, (LE: ... litlum skrefum.) hvort heldur sem það er fæðingarorlof, atvinnuleysistryggingar eða annað, verið unnir í mjög góðri sátt og samvinnu við verkalýðshreyfinguna. Það er rétt sem þingmaðurinn tók fram áðan, það er samráðsferli sem farið hefur fram í tengslum við þá skýrslu sem liggur að baki þessu máli. En það er líka svo að þegar kemur að því að hnýta lokahnútinn þarf alltaf að hafa samráð, það þarf alltaf að tala saman og ræða: Og svo ætlum við að gera þetta svona, er það ekki?

Ég held að það fari vel á því að menn einhendi sér í þessa vinnu. Hvort það verður til þess að nákvæmlega sú útgáfa sem hér liggur fyrir af fæðingarorlofsfrumvarpi verður samþykkt eða einhver önnur get ég fullvissað þingmanninn um að það var einmitt eitt af þeim skilyrðum sem Vinstri græn settu fyrir því að fara í ríkisstjórnarsamstarfið, að þetta væri eitt af þeim málum sem væru alltaf á borðinu.