148. löggjafarþing — 16. fundur,  24. jan. 2018.

fæðingar- og foreldraorlof.

98. mál
[16:53]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna þessu frumvarpi sem við ræðum hér og trúi því að við munum ná að bæta fæðingarorlofslöggjöfina áður en of langt um líður. Hv. þingmanni varð tíðrætt um jafnréttið, enda er það lykilatriði í öllu fæðingarorlofi. En ég velti fyrir mér og vil beina til hans spurningu varðandi gólf í greiðslum ekki síður en þak. Mér hefur ekki tekist að nálgast nýjustu tölur og mun leggja fram fyrirspurn um þær, en hluti þeirra sem eru í fæðingarorlofi fær fæðingarstyrk að upphæð 74.926 kr. á mánuði. Þetta eru að því er mér sýnist yngstu foreldrarnir. Er það ekki mikið jafnréttismál í okkar þjóðfélagi, að þessir yngstu foreldrar sem eru jafnvel ekki komnir út á vinnumarkaðinn njóti samt sem áður einhvers gólfs í greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði? Er ekki eitt af því sem við þurfum að velta fyrir okkur í þessu sambandi breyting á tengingu við atvinnuþátttöku og vinnumarkaðinn? Ég trúi því að þessir foreldrar sem eru ýmist mjög ungir eða jafnvel að ljúka námi og eru ekki búnir að ná fótfestu á vinnumarkaði eigi í mörgum tilfellum eftir að skila sínu á vinnumarkaðnum, jafnvel í lengri tíma en þeir sem þiggja fullar fæðingarorlofsgreiðslur, þær sem eru við þakið.

Ég vil því beina þeirri spurningu til hv. þingmanns hvort við verðum ekki einhvern veginn að snúa þessari nálgun við. Ég verð að viðurkenna að ég skammast mín pínulítið fyrir þennan þátt í kerfinu hjá okkur.