148. löggjafarþing — 16. fundur,  24. jan. 2018.

fæðingar- og foreldraorlof.

98. mál
[16:59]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég er alveg sammála hv. þingmanni og ég trúi því reyndar mjög staðfastlega að sá rökstuðningur að hlutirnir hafi alltaf verið svona sé aldrei góður rökstuðningur fyrir að hafa þá endilega þannig áfram. Þetta er að sjálfsögðu eitthvað sem við eigum að geta skoðað. Kerfið eins og það er í dag byggir á viðmiðunartekjutímabili sem getur verið verulega skert í samhengi við sumarstörf eða eitthvað þess háttar. Enn og aftur held ég að við þurfum að horfa til þess sérstaklega hvernig við ætlum að koma til móts við tekjulausa eða tekjulága einstaklinga. Við höfum komið til móts við námsmenn með heldur hærri fæðingarstyrk því að tekjur námsmanna eru oft á tíðum ekki tekjur heldur hreinlega námslán. Það þarf þá að mæta því með einhverjum hætti því að það er tekjumissir í sama skilningi. En þetta þurfum við að skoða, hvernig við getum tekið sérstaklega undir með þessum tekjulægsta eða tekjulausa hópi.