148. löggjafarþing — 16. fundur,  24. jan. 2018.

fæðingar- og foreldraorlof.

98. mál
[17:00]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður vakti athygli á hluta af því vandamáli sem er við núverandi kerfi, þ.e. hversu mikill munur er á mæðrum og feðrum sem taka fæðingarorlof. Samkvæmt þeim gögnum sem alla vega ég hef skoðað höfum við áhugaverðar tölur um þróun þess hlutfalls frá því að það var lítið sem ekkert þak fyrir hrun og síðan eftir að sett var þak. Á þeim tíma áður en þakið var sett, fyrir hrun, jókst hlutfall feðra í fæðingarorlofi upp í það að vera til jafns við konur. Ef mig misminnir ekki, ég er ekki með gögnin fyrir framan mig eins og er. Kannski að fyrrverandi ráðherra málaflokksins muni það nákvæmar. En um leið og hámarkið var lækkað kom strax í ljós að feður hættu að taka fæðingarorlof eða styttu það mjög mikið. Það sama átti við um mæður með háar tekjur, sem kom að vísu seinna inn. Þær neyddust þegar allt kom til alls til að taka samt fæðingarorlof. Ég er ekki með gögnin fyrir framan mig og það væri áhugavert ef fyrrverandi ráðherra málaflokksins rifjaði þetta upp. Ég býst við að hann hafi séð þær rannsóknir sem voru gerðar á þessu. Þau gögn sýna mjög greinilega að markmið okkar ætti að vera að hafa lítið sem ekkert þak. Niðurstaða þess verður jafnræði í töku fæðingarorlofs hjá mæðrum og feðrum.