148. löggjafarþing — 16. fundur,  24. jan. 2018.

fæðingar- og foreldraorlof.

98. mál
[17:02]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni að þetta hefur breyst mjög mikið til hins verra á tiltölulega skömmum tíma. Upprunalega var kerfið hugsað þannig að það væri ekkert þak, bara 80% af launum á viðmiðunartímabili. Hvort sem fólk væri tekjuhátt eða tekjulágt nyti það fullra greiðslna í því samhengi. Ég hygg að það hafi verið fæðingarorlofstaka ónefnds bankastjóra sem gerði út um það fyrirkomulag og olli því að það var sett á skilgreint þak sem ég held að á þeim tíma hafi verið einhvers staðar á bilinu 550–600 þús. kr. Það er væntanlega árið 2006 eða 2007 þegar þetta er tekið upp. Og það hafði ákveðin áhrif en um leið og það þak var skert verulega, niður í 300 þús. kr. í kjölfar efnahagshruns, beit það mjög mikið.

Þetta er auðvitað þannig að kjarni þessa kerfis er að það á ekki að vera tekjutengd ákvörðun að taka fæðingarorlof. Við erum í raun og veru að tryggja að fólk velji að eignast börn, því við viljum líka að þetta stuðli að fæðingum, og að það séu engar hindranir sérstaklega í starfsframa fólks til lengri tíma litið að eignast börn, að þær litlu hindranir sem eru auðvitað alltaf til, sem við tökum á okkur með glöðu geði af því að við viljum eignast börn, séu jafnar fyrir bæði feður og mæður og orlofstakan sem jöfnust. Ég held nú að við höfum aldrei náð jafnstöðu en þegar hvað best lét held ég að meðaltalið hafi verið þannig að mæður tóku u.þ.b. 180 daga, þ.e. sína 90 og hina sameiginlegu 90, og feður tóku 90. Ég held að við séum einhvers staðar í kringum 80 daga hjá feðrum í dag. Þetta hafði strax veruleg áhrif. Þó svo að hámarksfjárhæðin hafi verið hækkuð nokkuð myndarlega 2016 hefur það samt ekki haft nægileg áhrif því að þar sem þakið liggur er enn talsvert vel undir meðaltekjum í landinu.