148. löggjafarþing — 16. fundur,  24. jan. 2018.

fæðingar- og foreldraorlof.

98. mál
[17:06]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að þetta er í raun einhvers konar iðgjaldakerfi. Við erum í gegnum þetta tryggingagjald sem skilgreint var á sínum tíma, tæplega 1,3%, að greiða fæðingarorlofssjóðsiðgjald, ef svo mætti kalla. Þá er alveg rétt að tekjuhár einstaklingur borgar fleiri krónur í þennan sjóð og það reyndar á líka við ef mér t.d. endist aldur til að vera enn á vinnumarkaði sjötugur, þá er ég enn að borga fæðingarorlofsiðgjald þótt kannski sé frekar ólíklegt að ég fari að nýta mér það upp úr þeim aldri.

Það er bara eðli fyrirkomulagsins. Þess vegna var í sjálfu sér ekkert athugavert við þá hugsun í upphafi að það ætti ekkert endilega að horfa til hárra eða lágra tekna eða einhvers konar þaks heldur hefði fólk einfaldlega tiltekið hlutfall af tekjum sínum í fæðingarorlofi. Það má heldur ekki vanmeta þann þátt kerfisins sem er annars vegar jafnréttisvinkillinn og líka bara hið einfalda, að þetta sé sem minnst tekjuskerðing fyrir einstaklinga og hafi sem mest hvetjandi áhrif til barneigna. Það er nú kannski það sem við viljum ekki síður.