148. löggjafarþing — 16. fundur,  24. jan. 2018.

fæðingar- og foreldraorlof.

98. mál
[17:09]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Loga Einarssyni andsvarið. Nú verð ég að viðurkenna að við vorum ekki búin að leggjast í kostnaðarmat á þessu. Ég held að í sjálfu sér liggi í augum uppi að ef við erum að meðaltali að greiða í fæðingarorlofsgreiðslur 400–450 þús. kr. á mánuði sé nú sennilega hagkvæmara á endanum að koma fyrr inn með dagvistunarúrræði. En ég legg líka áherslu á að hafa sveigjanleika þarna á milli, að foreldrar hafi valfrelsi og hafi svigrúm til að meta hvað þeir telja barni sínu fyrir bestu og hvað því henti best.

Ég held reyndar líka að þetta sé einn af þessum þáttum þegar við tölum um sveigjanleika í menntakerfinu okkar almennt þar sem við getum hugsað kannski örlítið út fyrir kassann. Við getum velt fyrir okkur hvort við getum aukið sveigjanleikann í kerfinu í heild sinni með því að hugsa dagvistun og grunnskólagöngu í einhverri samfellu frá 12 mánaða aldri, með öllum sveigjanleika og valfrelsi, fram að lokum grunnskóla. Það sé jafnvel hægt að horfa til þess að auka sveigjanleika til að hefja grunnskólagöngu fyrr. Það eru töluverð viðbrigði fyrir börn að ganga upp úr leikskóla í grunnskóla. Það hefur líka verið nefnt að margt af því sem kennt er á síðasta árinu eða tveimur í leikskólunum, því heilmikið er nú kennt í leikskólum, sé endurtekið að einhverju leyti á fyrsta ári í grunnskóla. Þarna megi skoða þetta í samfellu. Jafnvel gæti hluti grunnskólakennslunnar átt sér stað á vettvangi leikskólans sem hentar kannski börnunum betur, en að við horfum á þetta þannig að það sé sveigjanleiki frá 12 mánaða aldri og jafnvel til þess að ljúka grunnskóla fyrr en í dag er. (Forseti hringir.) Þannig væri hægt að koma til móts við kostnaðaraukann sem felst í því að veita dagvistunarúrræðin fyrr.