148. löggjafarþing — 16. fundur,  24. jan. 2018.

skilyrðislaus grunnframfærsla.

9. mál
[17:27]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil nú byrja á að segja að ég hef í gegnum tíðina verið töluverður efasemdamaður borgaralauna. Ég vil nú samt þakka hv. þingmanni fyrir að koma með þetta mál til þingsins. Þrátt fyrir að ég efist um hlutina getur verið mjög gagnlegt að ræða þá og er sjálfsagt að skoða kosti og galla svona fyrirkomulags. Þetta er ekki bara til umræðu hér á landi heldur sjáum við að umræða um borgaralaun er farin að eiga sér stað mjög víða í nágrannalöndum okkar. Auðvitað er sú áskorun sem lýst er, þ.e. þær öru breytingar sem munu fylgja fjórðu iðnbyltingunni, veruleg fækkun hefðbundinna starfa eins og bent hefur verið á, ja, flestir eru sammála um þær. Þær eru raunverulegar breytingar sem við erum einfaldlega að ganga í gegnum í dag.

Það sem ég myndi velta fyrir mér og spyrja hv. þingmann út í í fyrsta lagi er: Ef við horfum bara á þá gríðarlegu breytingu sem hefur orðið á okkar samfélagi hér á landi og bara iðnbyltingu fyrri tíma, það hefur orðið alveg geigvænleg breyting á atvinnulífi og störfum fólks. Fólksflutningar úr sveitum í þéttbýli, iðnvæðingin og þessar breytingar allar. Hingað til hefur það alla vega reynst raunin að ný störf hafa undantekningarlaust skapast í stað þeirra sem tapast hafa. Þó svo að nú sé spáð að breytingar geti jafnvel orðið enn hraðari en áður byggir það líka á tæknibyltingu sem er allt eins líklegt að leiði af sér eitthvað allt annað, sköpun starfa sem við einfaldlega sjáum ekki fyrir. Er ástæða til að hafa jafn miklar áhyggjur af því og er undirliggjandi hugsun að borgaralaunum að við verðum með stóra hópa samfélagsins (Forseti hringir.) atvinnulausa einfaldlega því það verði engin störf til fyrir þá? Munum við ekki bara skapa þau í öðrum þáttum samfélagsins eins og hingað til?