148. löggjafarþing — 16. fundur,  24. jan. 2018.

skilyrðislaus grunnframfærsla.

9. mál
[17:30]
Horfa

Flm. (Halldóra Mogensen) (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurninguna. Það eru skiptar skoðanir þegar kemur að þessu. Þetta er eitt af þeim atriðum sem varða það hversu mikil áhrif tæknibyltingin muni hafa á framtíðarsamfélag, það er ekki vitað. Það kemur fram í mismunandi skýrslum. Í flestum þeirra kemur fram að ný störf muni verða til. Ég tel það mjög líklegt.

Spurningin er: Hvað gerum við á meðan þetta breytingarskeið er í gangi þar sem vinnumarkaðurinn er að breytast? Það hefur áhrif á hagkerfi okkar. Erum við undirbúin fyrir það þegar störf fara að úreldast og fólk er kannski ekki með menntun til að fara í önnur störf?

Hugmyndin með þessari tillögu hefur alltaf verið sú að við förum að hugsa um þessa hluti svo við séum ekki alltaf í þeirri stöðu að vera bara að bregðast við þegar hlutirnir gerast. Að við séum tilbúin til að taka svona hugmyndir sem mörg lönd í kringum okkur taka mjög alvarlega og skoða af alvöru. Því að þetta er líka val. Þetta er ekki spurning um að borgaralaun verði nauðsynleg, að við þurfum á þeim að halda. Það er líka spurning um val. Getum við boðið upp á borgaralaun? Og ef við getum gert það, er það þá vænlegt fyrir samfélagið? Væri gott að gera það? Hvaða áhrif hefði það á samfélagið og á hvatana og fólkið í samfélaginu og kerfinu? Slíkir hlutir finnast mér svo áhugaverðir. Það er þess virði að skoða þá hugmynd því að hún gæti hugsanlega verið frábær lausn fyrir framtíðarsamfélagið Ísland. Kannski ekki. En það er þess virði, sérstaklega í ljósi þess að nú á að fara að setja framtíðarnefnd í gang, sem mér finnst frábær hugmynd, að taka svona hugmyndir og skoða þær alvarlega þannig að við séum reiðubúin fyrir það sem kemur.