148. löggjafarþing — 16. fundur,  24. jan. 2018.

skilyrðislaus grunnframfærsla.

9. mál
[17:40]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Miðað við þessa lýsingu er ekki verið að einfalda neitt. Við megum heldur ekki gleyma því, þar sem við erum nú einu sinni tilfinningaverur og það er ekki hægt að setja okkur upp í eitthvert excel-skjal. Bara sú hugsun að fá eitthvað úr sameiginlegum sjóðum án þess að hafa nokkra skyldu á móti, bara af því að mig langar að lifa lífinu eins og ég vil helst lifa því, er mjög skaðleg. Hún dregur allan hvata úr fólki til að skapa verðmæti. Því að ég vil bara gera það sem mér finnst skemmtilegt að gera. Það er það skaðlega við þetta, alveg eins og menn héldu með sósíalismanum, að hægt væri að setja hlutina í einhverjar áætlanir og að fólkið ætti að haga sér svona, sem það gerir auðvitað ekki.

Ég ætla ekki að taka þátt í annarri samfélagstilraun. Það var nóg að þurfa að hlusta á þetta allt saman í Menntaskólanum í Hamrahlíð á sínum tíma. Ég ætla ekki að taka fleiri tilraunir af þessu tagi og ég held að við eigum bara að velta því fyrir okkur að vera frekar hvetjandi, jákvæð og tryggja það með betri hætti en við gerum í dag, auðvitað með því að hafa betra og öflugra atvinnulíf og að sem flestir taki þátt í því, að við getum þá stutt þá almennilega sem eiga undir högg að sækja og þurfa á grunnframfærslu að halda. Við þurfum að standa okkur betur í því.

En það gerist ekki nema flest okkar og helst öll, eins og hægt er, taki þátt í að skapa verðmætin en ekki að leika okkur með lífið eins og við viljum helst hafa það.