148. löggjafarþing — 16. fundur,  24. jan. 2018.

skilyrðislaus grunnframfærsla.

9. mál
[17:42]
Horfa

Flm. (Halldóra Mogensen) (P) (andsvar):

Forseti. Mig langar í kjölfar athugasemda hv. þm. Brynjars Níelssonar að árétta að þetta snýst um að við skoðum þessa hugmynd og höfum hana í veganesti fyrir framtíðina því að við getum ekki séð núna hvað gerist í framtíðinni, við vitum það ekki. Við þurfum að fara að horfa fram í tímann.

En mig langar líka til að segja frá því að í þeim löndum þar sem tilraunir í þessu efni hafa verið gerðar sýna þær fram á þveröfuga niðurstöðu við það sem hv. þingmaður segir. Í Namibíu var gerð tilraun með skilyrðislausa grunnframfærslu. Í kjölfar hennar fækkaði tilkynntum glæpum til lögreglunnar um 36,5%, hlutfall vannærðra barna féll úr 42% niður í 10%, brottfall úr skólum minnkaði um 42%, atvinnuleysi fór úr 60% niður í 45% og atvinnuþátttaka jókst. Meðaltekjur að undanskildum styrknum jukust um 29% og fjöldi nýrra fyrirtækja var stofnaður.

Það er sagan sem allar þessar tilraunir á skilyrðislausri grunnframfærslu sýna. Hún hefur jákvæð áhrif á hvata fólks, ekki neikvæð. Því að þrátt fyrir hugmyndafræði hv. þingmanns um hvaða hvatar virki á fólk og hvernig fólk sé innrætt vilja flestir gera gott fyrir samfélagið, vilja vera þátttakendur, vilja vera hluthafar í samfélaginu. Við þurfum ekki að vera með einhverja svipu á fólk til að neyða það til að gera hluti sem það vill ekki gera. Við þurfum bara að skapa hér umhverfi með hvötum fyrir fólk til að haga sér í samfélaginu á þann hátt að allir fái tækifæri til að blómstra.

Ég ítreka að þetta er hugmynd sem verið er að tala um úti um allan heim og taka alvarlega. Af hverju getum við ekki tekið þessa hugmynd alvarlega og skoðað hana? Ég sé ekkert því til fyrirstöðu.