148. löggjafarþing — 16. fundur,  24. jan. 2018.

þjóðarsátt um bætt kjör kvennastétta.

50. mál
[18:15]
Horfa

Flm. (Þorsteinn Víglundsson) (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Við áttum einmitt góðar samræður um jafnlaunavottun fyrir um ári síðan. Ég tek undir það að jafnlaunavottunin er einmitt mjög öflugt verkfæri til þess að útrýma kynbundnum launamun, en eins við ræddum líka þá er það ekki eina tólið og dugar ekki og fleytir okkur ekki alla leið. Það lagfærir kynbundin launamun innan vinnustaða en ekki milli heilla atvinnugreina, eða stétta eins og hér er verið að tala um.

Ég held að í sjálfu sér þurfi þetta ekki að vera mjög tímafrekt verkefni í greiningu. Mjög mikið af þessum gögnum liggur þegar fyrir. Unnin hefur verið mjög mikil og markviss vinna milli stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins mörg undangengin ár í aðgerðahópi gegn kynbundnum launamun. Ég held að það eigi ekki að taka mjög langan tíma að greina það, en auðvitað þarf að kafa svolítið ofan í það og þetta getur verið misjafnt milli einstakra stétta o.s.frv. þannig að það þarf að leggja í vinnu til að greina það. Enda er það bara mjög mikilvægt að aðilar séu á traustum grunni, sáttir við að þetta sé myndin, svona blasi hún við, svona sé verkefnið sem þurfi að leiðrétta, eins og hv. þingmaður segir alveg réttilega, því að ég held að það sé einmitt tilfellið. Við erum einfaldlega að tala um að launaþróun þessara mikilvægu stétta hafi bara ekki verið í takt við sambærilega hópa á vinnumarkaði. Ég held að það sé staðreynd málsins og við þurfum að horfast í augu við hana. Við erum líka að horfast í augu við vandann sem hlotist hefur af því, sem er mönnunarvandi í öllum þessum stéttum. Þess vegna er mjög mikilvægt að taka á þessu. Eins og ég segi þarf greiningin að vera vönduð, en hún þarf ekki að taka mjög langan tíma. Hversu langan tíma það tekur síðan að hrinda leiðréttingunni sem slíkri í framkvæmd verður að ráðast af umfanginu, en á tveimur til fjórum árum ætti að vera hægt að stíga mjög ákveðin skref í þessu efni.