148. löggjafarþing — 16. fundur,  24. jan. 2018.

þjóðarsátt um bætt kjör kvennastétta.

50. mál
[18:25]
Horfa

Flm. (Þorsteinn Víglundsson) (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég verð að viðurkenna fyrir hv. þingmanni að ég hef ekki mikla sérfræðiþekkingu í þessu og kynni jafnvel að æra heimilisfólk ef ég ætlaði að tjá mig mikið um þetta. Ég heyrði af þessu viðtali, ég sá það ekki, við nýkjörinn formann Félags grunnskólakennara. Og ég skil hvert hún er að fara í málflutningi sínum.

Ég held að almennt megi segja um kjarasamning grunnskólakennara, og framhaldsskólakennara þess vegna, að þar sé of mikill ósveigjanleiki í vinnutíma, fyrirkomulagi kennsluskyldu og þess háttar, af því að álag getur verið mjög misjafnt eftir kennslugreinum, samsetningu bekkja o.s.frv. og að þar vanti kannski einmitt meiri sveigjanleika. Kennarar geta t.d. verið með erfiða eða auðvelda bekki eða erfið eða auðveld fög og ungir kennarar þurfa kannski frekar að búa við minni kennsluskyldu en eldri og reyndari kennarar o.s.frv., (Forseti hringir.) þarna vanti meiri sveigjanleika. Ég skil alveg röksemdafærsluna á bak við þetta. En ég held að það sé alveg sjálfstæð umræða til hliðar við þessa.