148. löggjafarþing — 16. fundur,  24. jan. 2018.

þjóðarsátt um bætt kjör kvennastétta.

50. mál
[18:27]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég vil taka undir þessa þingsályktunartillögu þó að ég sé hugsi yfir ýmsu sem ekki kemur fram þar. Mér finnst þetta mjög góð þingsályktunartillaga heilt yfir, þ.e. að hægt verði að ná þjóðarsátt um bætt kjör kvennastétta. Það er mjög verðugt verkefni að vinna að því. Það sem ég hef verið að hugsa um, þegar ég hef verið að lesa þessa tillögu, er að mér finnst að nefna hefði mátt konur í mörgum öðrum stéttum; konur sem eru kannski ekki faglærðar, láglaunakonur í ýmsum umönnunarstéttum, í verslun, þjónustu og fiskvinnslu, svo að eitthvað sé nefnt. Hér er talað um að ráðist verði í að greina launakjör fjölmennra stétta, og sérstaklega talað um kennara og heilbrigðisstarfsfólk, í samanburði við aðrar stéttir með sambærilega menntun og ábyrgð og er það vel. En ég vildi gjarnan sjá að þarna væri vísað til kvenna í fjölmörgum öðrum stéttum, kvenna sem eru á mjög lágum launum og hafa verið í gegnum tíðina og líka í konur sem eru að vinna ólaunuð störf inni á heimilum, störf sem ekki eru metin til tekna. Við getum líka nefnt konur til sveita. Í gegnum tíðina hafa konur unnið ýmis störf og lagt fram vinnu sína án þess að tekjur komi til. Það er vissulega brýnt að ná samstöðu um slíkt átak.

Flutningsmenn þessarar tillögu eru úr þessum flokkum, Viðreisn, Samfylkingu og Pírötum. Ég held hins vegar að þingmenn heilt yfir getið tekið undir þessa tillögu þó að það megi lagfæra hana. Fyrsti flutningsmaður, Þorsteinn Víglundsson, þekkir auðvitað vel til í þessum geira sem fyrrverandi formaður Samtaka atvinnulífsins. Sú sem hér stendur var mjög lengi í verkalýðsbaráttu og einmitt fyrir þessar láglaunastéttir og þar með fjölmennar kvennastéttir. Það væri gaman að heyra frá hv. þm. Þorsteini Víglundssyni hvort þessi umræða hefur átt sér stað innan Samtaka atvinnulífsins. Því miður fannst mér þann tíma sem ég var í verkalýðsbaráttu, hátt í tvo áratugi, að vilja hafi skort til þess hjá Samtökum atvinnulífsins að taka þessar kvennastéttir sérstaklega út fyrir sviga og horfa til kjara þeirra og lyfta þeim upp umfram aðrar stéttir sem voru komnar í betra skjól með kjarabaráttu sína.

Auðvitað er ég ekki að draga úr vilja hv. þingmanns til að vinna að þessu máli núna sem sitjandi þingmaður, langt í frá. En hann þekkir innan úr þessum geira hvernig menningin og andrúmsloftið hefur verið. Menn hafa gert ákveðnar tilraunir til að taka þessar lægst launuðu stéttir út fyrir sviga, að sambærilegar kjara- eða kauphækkanir gangi ekki yfir allan launastigann, og það hefur mjakast í rétta átt. Oftar en ekki eru þessar láglaunastéttir að stærstum hluta kvennastéttir, það er bara veruleikinn. Þá erum við ekki eingöngu að tala um vel menntaðar kvennastéttir heldur líka stéttir sem eru ekki „faglærðar“ þó að þær konur hafi jafnvel sótt sér menntun í formi námskeiða og ýmiss konar fræðslu. Menntun þessara kvenna hefur kannski ekki lokið með formlegu prófi í ákveðnum löggiltum störfum en þær hafa samt mikla þekkingu að baki og eru að vinna ábyrgðarstörf.

Ég er hrædd um að ef ófaglærðar konur í heilbrigðiskerfinu, í ferðaþjónustu og í fiskvinnslu legðu niður störf — ég er ekki að segja að þarna sé engin fagþekking, en kannski ekki eins mikil formleg menntun að baki — mundi allt þjóðfélagið meira eða minna lamast. Þannig er veruleikinn. Þessar konur hafa kannski ekki í gegnum tíðina haft þann slagkraft að geta barist fyrir því að kjör þeirra væru tekin út fyrir sviga, þær hafa ekki fengið sérstaka athygli eða hækkanir umfram þær hækkanir sem stéttir í þjóðfélaginu hafa barist fyrir í gegnum árin. Allt er það ágætt sem unnist hefur.

Í meðförum þeirrar nefndar sem fær málið til umfjöllunar vil ég að einnig verði horft til þessara kvenna, sem kannski má kalla óhreinu börnin hennar Evu — ég veit ekki hvort ég á að segja það þannig, en það liggur við að ég noti það orðalag vegna þess að allt of oft vill gleymast í umræðunni að þessi illa metnu kvennastörf halda uppi undirstöðum þjóðfélagsins.

Ég veit líka að hv. fyrsti flutningsmaður þessa frumvarps þekkir vel til SALEK-umræðunnar og þess vinnumarkaðsmódels sem þar liggur undir. Í þeim umræðum höfðu menn vissulega áhyggjur af því að það fyrirkomulag mundi bitna á þeim stéttum sem ekki væru búnar að ná eðlilegum samanburðarkjörum við það sem gengur og gerist í löndunum í kringum okkur og innan þjóðfélagsins; stéttum sem ekki væru með það starfsmat sem þær ættu að hafa. Menn höfðu áhyggjur af því að þessi störf, sem væru að stórum hluta kvennastörf, mundu festast í því fari sem þau væru í og fengju ekki framgang, þ.e. ef vinnumarkaðsmódeli væri bara komið á eins og meiningin var að gera. Menn óttuðust að ekki yrði horft til ýmissa hagvísa og að þær stéttir sem hefðu dregist aftur úr, láglaunastéttir, festust í því hjólfari og fengju ekki þær hækkanir sem skyldi til að lyfta láglaunastéttum upp. Ég myndi gjarnan vilja heyra viðbrögð hv. þingmanns í þessu samhengi, þ.e. hver staða þessara kvennastétta og láglaunakvenna almennt yrði ef það módel yrði keyrt í gegn án þess að tekið væri sérstakt tillit til þeirra sem hafa dregist aftur úr og eru á óviðunandi kjörum.

Hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur benti líka á áhugavert atriði, þ.e. að grunnlaun karla og kvenna eru kannski þau sömu, en hjá körlunum bætast oft alls kyns sporslur við, hvort sem það er óunnin yfirtíð, bílahlunnindi eða hvaða nafni sem það nefnist. Það kemur síðan ekki fram en það útskýrir stundum þann launamun sem er á milli kynjanna, bæði á hinum almenna vinnumarkaði og í opinbera geiranum. Þá væri líka ágætt að heyra frá hv. þm. Þorsteini Víglundssyni, hvort hann telji að hluti af því að ná launum kvenna upp til jafns við þá ábyrgð sem fylgir starfi þeirra sé að launaleynd verði afnumin.

Ég styð þessa þingsályktunartillögu og vænti þess að það sem ég hef nefnt hér verði tekið til umfjöllunar í þeirri nefnd sem fær málið til sín.