148. löggjafarþing — 16. fundur,  24. jan. 2018.

þjóðarsátt um bætt kjör kvennastétta.

50. mál
[18:37]
Horfa

Flm. (Þorsteinn Víglundsson) (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég fæ kannski að nýta andsvarið til þess að svara þeim spurningum sem hv. þingmaður beindi til mín sem voru allnokkrar og mjög áhugaverðar.

Ég tek undir það að í svona átaki þarf auðvitað að horfa heilt yfir vinnumarkaðinn, þennan kynjaskipta vinnumarkað, og þann þátt sem skýrir lakari kjör kvenna eða kynbundinn launamun hér á landi.

Það er alveg rétt að það getur líka átt við í kvennastéttum þar sem menntunarstig er lægra en það sem nefnt var sem dæmi í þessari þingsályktunartillögu. Það hefur hins vegar verið nokkuð áberandi þróun á undanförnum árum að konur hafa verið að auka verulega við menntun og sækja í störf þar sem þarf hærri menntun þannig að atvinnuþátttaka kvenna þegar horft er til einstakra starfsgreina hefur breyst verulega á undanförnum árum. Það er jákvætt í því samhengi að það er í átt til hærra launastigs. Raunar er það svo að almennt eru konur betur menntaðar en karlar að meðaltali. Við sjáum þetta líka í menntakerfinu að talsvert hærra hlutfall kvenna en karla útskrifast út úr háskólanámi o.s.frv. En það dregur ekkert úr mikilvægi þess að horfa til þessara þátta líka.

Hv. þingmaður nefndi hið svokallaða SALEK-samkomulag og þá viðleitni að reyna að breyta vinnubrögðum á vinnumarkaði í átt að því sem við þekkjum kannski frekar á hinum Norðurlöndunum. Ég held einmitt að átak sem þetta sé mjög mikilvægt. Maður heyrir það skýrt í umræðunni um slíkt fyrirkomulag að fjölmargar stéttir, m.a. þessar kvennastéttir, telja að áður þurfi að huga sérstaklega að þessum kynbundna launamun og það geti þá liðkað fyrir slíkri vinnu í gerð nýs samningalíkans. Ég fæ kannski að koma betur að öðrum spurningum í síðara andsvari.