148. löggjafarþing — 16. fundur,  24. jan. 2018.

þjóðarsátt um bætt kjör kvennastétta.

50. mál
[18:39]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Já, ég held að það sé gott innlegg inn í komandi kjarabaráttu sem fram undan er hjá ýmsum stéttum að taka þetta mál á dagskrá og það sé mjög brýnt. Það hefur oft verið sagt að þær stéttir þar sem meiri hlutinn er konur reynist oft frekar metnar til lægra launa. Ég man að þegar kvenprestum fjölgaði þá var uppi umræða um að það þýddi að kjör þeirrar stéttar myndu versna. Við þekkjum þá umræðu að þar sem konur eru í meiri hluta í einhverjum stéttum leiði það oftar en ekki til þess að þær stéttir séu ekki metnar að verðleikum í launum. Það er miður og sýnir vanmat samfélagsins á viðkomandi störfum og það er ekkert sem réttlætir það.

Þess vegna vil ég undirstrika í þessari umræðu að mér finnst þurfa að halda til haga þeim stéttum sem eru svona þessar földu stéttir, með ekki mikla menntun, sem vinna í ferðaþjónustu, í ýmsum umönnunargreinum, inni á heilbrigðisstofnunum og í ferðaþjónustu sem dæmi. Af hverju eru þær stéttir kannski að stærstum hluta kvennastéttir? Hafa ekki launin eitthvað með það að gera? Í þessu samhengi þarf líka að horfa til þess að fram fari starfsmat sem víðast til þess að endurskoða mat á ýmsum störfum sem hafa verið að meiri hluta til kvennastörf.