148. löggjafarþing — 16. fundur,  24. jan. 2018.

þjóðarsátt um bætt kjör kvennastétta.

50. mál
[18:42]
Horfa

Flm. (Þorsteinn Víglundsson) (V) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að við þurfum að horfa til þess hvað veldur einmitt þessum gríðarlega kynjaskipta vinnumarkaði hjá okkur. Eins og ég segi þá hefur margt verið að breytast á vinnumarkaði á undanförnum árum og áratugum og mjög margt jákvætt sem er í raun ekki hægt að lýsa með öðrum hætti en sem mikilli sókn kvenna á vinnumarkaði almennt. Blessunarlega hefur það skilað því að kynbundinn launamunur hefur minnkað, framgangur kvenna í hinum ýmsu stéttum hefur verið betri en kannski áður var og allt er þetta mjög jákvætt. En við sjáum enn þá þennan mikla kynbundna launamun. Við eigum að leggja okkur öll fram við það að skilja hvað veldur. Hvernig getum við tekið á því?

Þessi þingsályktunartillaga ásamt lögum um jafnlaunavottun held ég að sé mikilvægt skref í þeirri baráttu. Þetta mál er auðvitað þess eðlis og fær vonandi góða og gagnlega umfjöllun í viðkomandi nefnd. Margt má örugglega betur fara og ég treysti nefndinni fyllilega til þess að skoða hana vandlega og bæta úr.

Hv. þingmaður spurði mig áðan út í viðhorf vinnuveitenda í þessa veru. Ég held satt besta að segja að í störfum mínum fyrir Samtök atvinnulífsins á sínum tíma hafi aldrei reynt mikið á það. Það kom aldrei fram þessi krafa af hálfu verkalýðshreyfingarinnar um sérstaka leiðréttingu kvennastétta. Það er hins vegar vel þekkt að einstakir hópar færa gjarnan fram mjög vel rökstuddar kröfur um leiðréttingar af ýmsu tagi, þar með talið fjölmennar kvennastéttir eins og kennarar hafa gert í gegnum tíðina, hjúkrunarfræðingar o.s.frv. En það sem vantar kannski er einmitt þessi samstillta nálgun og að verkalýðshreyfingin sé í heild sinni (Forseti hringir.) með í ráðum um að skapa þá sátt. Það verði gerðar sérstakar leiðréttingar um þessa skilgreindu hópa sem verða ekki bara að almennum kröfum allra annarra líka.