148. löggjafarþing — 16. fundur,  24. jan. 2018.

þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga.

105. mál
[19:09]
Horfa

Flm. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þingmanninum andsvarið eða meðsvarið. Ég er alveg sammála því, auðvitað fyndist mér eðlilegt að við gætum stutt öll börn meðan þau eru á framfæri foreldra sinna, a.m.k. upp til 18 ára aldurs, á meðan þau eru skilgreind sem börn. En eins og hv. þingmaður sagði þurfum við að byrja einhvers staðar. Þess vegna finnst mér mjög mikilvægt að halda utan um þennan hóp á meðan sjónin er að þroskast á viðkvæmasta aldursstiginu, og þoka málinu eitthvað áfram. Þetta er í þriðja sinn sem ég flyt það þannig að ég vona að við náum því eitthvað áleiðis varðandi þennan þátt þó að stuðningurinn sé bara fram til 10 ára aldurs.

Fram kom í máli augnlækna þegar ég átti samtal við þá að það væri sá aldur, fram til 10 ára, sem væri mikilvægasti tíminn. Niðurgreiðslan er tvískipt, þ.e. hún er tvisvar á ári hjá þeim sem þurfa á gleraugum að halda. Þar er gert ráð fyrir að hlutakostnaður, eða 75%, sé greiddur, og einnig umgjarðir, sem voru áður ekki niðurgreiddar, bara glerin. Svo er greiddur allur kostnaður hjá þeim hópi sem þarf að leggja út í kostnað vegna læknisfræðilegrar meðferðar, ef við getum sagt sem svo, eins og hv. þingmaður benti á og vísað til sjálfrar sín. Það er dæmi um þar sem kostnaður er greiddur að fullu.

Ég tek alveg undir það, ég mundi vilja hafa þetta með þeim hætti sem þingmaðurinn lýsti. En ég tel að þetta sé skref í þá átt að við þokum þessu áfram. Það er oft þannig að við þurfum að taka skrefin hægar en við vildum, en það getur verið betra en taka stórt stökk og ná kannski litlu eða engu fram.