148. löggjafarþing — 16. fundur,  24. jan. 2018.

þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga.

105. mál
[19:11]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, það er rétt sem hv. þingmaður segir að auðvitað er betra að fá eitthvað en ekki neitt. Hún bendir á að þetta sé í þriðja sinn sem hún flytur þessa tillögu. Ég tel að staða hv. þingmanns sé mun sterkari í dag en áður þannig að við megum búast við jákvæðari niðurstöðu.

Þetta hét Sjónstöð Íslands þegar ég kynnist henni, var þá orðin vel fullorðin, en þetta heitir núna Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu. Á þeim tíma þegar ég kynntist Sjónstöðinni, sem svo hét þá, voru bæði gleraugu og umgjarðir algjörlega endurgjaldslaus. Mér finnst við hafa bakkað allharkalega einhvers staðar á tímabilinu og tekið alveg svakalegt heljarstökk aftur á bak, þannig að ég er ekkert viss um að „baby steps“, ef ég má sletta, svona pínulítil ungaskref séu heppileg. Hvernig væri að við tækjum aftur heljarstökk fram á við og settum okkur í þá stöðu sem við vorum í fyrir öllum þessum árum síðan? Ég held að við séum jafnvel fjárhagslega stöndugri í dag en þá. En ég segi: Áfram, hv. þingmaður.