148. löggjafarþing — 16. fundur,  24. jan. 2018.

þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga.

105. mál
[19:13]
Horfa

Flm. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir. Það er örugglega margt í samfélaginu sem farið hefur aftur á bak sem ég minnist og hef þekkingu og reynslu af, eitthvað sem var öðruvísi áður og endurgjaldslaust þar sem síðar hefur verið komið á gjaldtöku í kerfinu okkar. Ég vildi gjarnan taka þetta í stóru stökki. Ég tel mig vera í sterkari stöðu en áður, ég tek undir það með hv. þingmanni. Þess vegna vona ég að við náum þessu máli eitthvað áleiðis. Víða er kallað eftir fjármunum og margir sem vilja fá meira fé inn í þá málaflokka sem hafa því miður verið sveltir.

En ég held að þetta sé mál sem við getum sameinast um í þinginu. Ég heyrði ekki betur en að velferðarnefnd hefði verið sammála um að afgreiða málið bæði síðast og þar síðast, en svona mál týnast gjarnan við þinglok, samið er um að klára einhver tiltekin mál fyrir hönd þingflokka, en mitt var ekki eitt af þeim. En nú er þetta eitt af forgangsmálum okkar Vinstri grænna, þingmannamálum. Ég vona það svo sannarlega að ég nái því í gegn og að velferðarnefnd afgreiði það fljótt og vel sökum þess að það er búið að koma tvisvar sinnum fyrir áður. Það ætti því að vera hægt að afgreiða það á tiltölulega skömmum tíma úr nefndinni.