148. löggjafarþing — 17. fundur,  25. jan. 2018.

framtíðarskipulag LÍN.

[10:37]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Það er svo að skipun þessarar stjórnar er á lokametrunum, þannig er staða mála. Það er svolítið skemmtilegt að standa hér og verða vitni, enn og aftur, að þeirri gamaldags pólitík sem hv. þingmaður stundar. Það er alveg ljóst að þessi ríkisstjórn er nýtekin við. Það að ráðherrann vilji vanda til verka, vanda sig þegar hún skipar nýja stjórn, ætti ekki að setja í samhengi við það að við séum ekki að vinna vinnuna okkar. Það er að sjálfsögðu ekki svo. Hér upplýsist það. Við erum á lokametrunum að skipa þá stjórn. Eins og hv. þingmaður nefndi hefur það tekið átta ár. Það hefur ekkert gerst. Það er ekki búið að klára nákvæmlega þetta af því að ráðherrann vill vanda til verka og finnst mér þetta svolítið gamaldags pólitík og aðeins til þess að skapa tortryggni í garð stjórnvalda og ríkisstjórnarinnar, sem er svo sannarlega með góðan hug í málinu eins og þingheimur ætti að vita.