148. löggjafarþing — 17. fundur,  25. jan. 2018.

staðsetning þjóðarsjúkrahúss.

[11:00]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Undanfarin misseri hafa raddir þeirra orðið háværari sem vilja finna þjóðarsjúkrahúsinu nýjan stað til langrar framtíðar og í ljósi þess er ástæða til að vekja athygli á málinu í þingsal. Fólk hefur lýst áhyggjum sínum af því hvernig aðgengi að þjónustu spítalans verður háttað og engar forsendur eru lengur til staðar. Því er haldið fram að nálægð við Háskóla Íslands skipti máli og vissulega skiptir máli að vera í nálægð við fræðasamfélagið en það má velta fyrir sér hvort vegi þyngra, aðgengi þeirra sem nota þjónustu þjóðarsjúkrahússins eða nálægð við byggingar Háskóla Íslands.

Það er ekki þannig, að ég best veit, að fólk sé á hlaupum á milli HÍ og LSH dagsdaglega en það er alveg klárt að þeir sem þurfa á spítalann eru íbúar þessa lands og hagsmunir þeirra vega þyngra.

Aðgengi að spítalanum í dag er ekki í lagi og nýlega komu fram upplýsingar um að hægja þurfi enn frekar á umferð í nálægð spítalans á fyrirhuguðum framkvæmdatíma og nógu er hún hæg fyrir.

Þetta er gert þrátt fyrir að íbúum hafi fjölgað og að fleiri ferðamenn sæki landið heim. Það er alveg ljóst að skipulag og aðgengi hefur breyst, þungamiðja fjölda íbúa er ekki lengur í radíus í kringum Hringbraut, hún er mun austar og snertir hagsmuni nágrannasveitarfélaga einnig sem og landsins alls.

Annað atriði sem skiptir máli í umræðunni er aðgengi starfsfólks að spítalanum og þess vegna leikur mér forvitni á að vita hvort könnun hafi verið gerð á hug starfsmanna til staðsetningar þjóðarsjúkrahússins. Þeir hljóta að hafa rödd varðandi aðgengi og skipulag. Varla er hægt að ætlast til þess að þeir komi á hjóli eða í strætó til vinnu. Vissulega er gott að hvetja til þess að fólk noti almenningssamgöngur eða ferðist um á hjóli en það er erfitt að sjá hvernig starfsmenn eigi skilyrðislaust og án vals að láta undan kröfunni. Einnig má velta fyrir sér hvort fólk verði ekki fljótara í förum ef þjóðarsjúkrahúsið verður reist nær íbúunum sjálfum og þar með heilbrigðisstarfsmönnum sjúkrahússins, t.d. á Keldnaholti eða á Vífilsstöðum.

Í óformlegri könnun sem gerð var meðal heilbrigðisstarfsmanna, og þar með talið sjúkraflutningamanna, kom í ljós að meiri hluti þeirra leggst gegn því að halda áfram með uppbyggingu við Hringbraut. Það má benda á að nýtt þjóðarsjúkrahús á nýjum stað þarf ekki að taka lengri tíma í byggingu en framkvæmdir sem eru fyrirhugaðar í heild sinni á Hringbraut og þær gætu meira að segja kostað minna.

Sem innlegg í þær vangaveltur má benda á að nágrannaþjóðir okkar hafa margar hverjar kosið að fara þá leið að reisa ný sjúkrahús í jaðri byggðar en ekki inni í borgum eða bæjum þar sem aðgengi er hvað best. Það gefur tækifæri til þess að laða að starfsfólk og þess vegna þarf að fá úr því skorið hvort eigi að finna sjúkrahúsinu annan stað.

Ávinningurinn í mínum huga er ótvíræður. Það kemur öllum til góða, andlega og líkamlega. Sjúklingar, aðstandendur og starfsfólk mun líta framkvæmdirnar jákvæðum augum. Skipulagsmál snúast um umgjörð fyrir samfélagið og allir þurfa á lífsleiðinni að leggjast inn á sjúkrahús eða tengjast einhverjum sem gera það og í löndunum í kringum okkur virðist fólk vera búið að átta sig á þeirri staðreynd sem ég nefndi hér fyrr með staðsetningu.

Ég spyr því: Hver er hugur starfsmanna spítalans til núverandi hugmynda um staðsetningu þjóðarsjúkrahússins?

Hvaða skipulagslegu þættir gefa til kynna að reisa eigi þjóðarsjúkrahúsið við Hringbraut?

Hvað er það sem kemur í veg fyrir að gerð verði ný staðarvalsgreining fyrir þjóðarsjúkrahúsið?

Að lokum vil ég benda á að staðsetning þjóðarsjúkrahúss snýst ekki aðeins um skipulag og byggingar, sjúkrahús snúast um tilfinningar og oft og tíðum bæði líf og dauða, gleði og sorg, og þess vegna er mikilvægt að vanda til verka og láta skynsemi ráða stefnunni. Þess vegna hef ég óskað eftir þessari umræðu hér í dag og ég fylgist áhugasöm með svörum hæstv. heilbrigðisráðherra sem og þeirra sem vilja leggja málinu lið.