148. löggjafarþing — 17. fundur,  25. jan. 2018.

staðsetning þjóðarsjúkrahúss.

[11:05]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. málshefjanda fyrir að vekja máls á uppbyggingu Landspítala við Hringbraut sem lengi hefur verið beðið eftir. Staðarvalið hefur ítrekað borið á góma og ég held að það sé afar gott að fá tækifæri til að fara yfir aðdraganda þeirrar ákvörðunar að byggja upp við Hringbraut og hvaða áhrif það hefði að breyta þeirri ákvörðun nú, í raun 16 árum eftir að sú ákvörðun var tekin.

Í janúar 2002 skilaði starfsnefnd um framtíðaruppbyggingu Landspítala – háskólasjúkrahúss tillögu sinni til þáverandi heilbrigðisráðherra um að hið nýja sjúkrahús skyldi rísa við Hringbraut. Á sérstökum fréttamannafundi í lok janúar 2002 þar sem nefndin kynnti tillögur sínar lýsti heilbrigðisráðherra, þá Jón Kristjánsson, því yfir að hann gerði tillögu starfshópsins að sinni. Þessi niðurstaða byggðist á ítarlegum samanburði þriggja staðsetningarkosta, þ.e. við Hringbraut, í Fossvogi og í landi Vífilsstaða. Erlent ráðgjafarfyrirtæki hafði verið fengið til að meta þessa þrjá kosti með tilliti til aðgengis, tengingar við Háskóla Íslands og miðborgina, nýtingargetu og möguleika lóða, yfirbragðs bygginga, framkvæmdatíma og kostnaðar.

Á þeim 16 árum sem liðin eru frá því að ákvörðun um uppbyggingu Landspítala við Hringbraut lá fyrir hefur málið reglulega verið tekið upp að nýju. Formleg athugun á því hvort ástæða væri til að breyta staðarvalinu var t.d. gerð 2008 en niðurstaðan varð sú sama og fyrr, þ.e. að besta staðsetningin fyrir nýtt háskólasjúkrahús væri við Hringbrautina.

Hv. þingmaður spyr í fyrsta lagi hver sé hugur starfsmanna spítalans til núverandi hugmynda um staðsetningu þjóðarsjúkrahússins. Þá er því til að svara að frá því að Alþingi samþykkti lög um byggingu nýs Landspítala við Hringbraut 22. júlí 2010 hafa mörg hundruð starfsmanna spítalans tekið þátt í miklum fjölda notendahópa, vinnustofa og fleira. Í þeim hópi lykilstarfsmanna hefur verið einhugur um staðsetninguna. Á fjölmennum vinnustað með yfir 5.000 starfsmenn eru að sjálfsögðu einhverjir sem ekki vilja byggja starfsemina upp við Hringbraut. Sú umræða hefur þó aldrei verið hávær innan spítalans en nokkuð áberandi í fjölmiðlum eins og kemur fram í máli hv. málshefjanda.

Læknaráð, hjúkrunarráð og starfsmannaráð Landspítalans hafa reglulega ályktað til stuðnings þessari byggingu.

Þá má nefna að skipulags- og þróunarnefnd læknaráðs Landspítala lagði formlega til í upphafi þessarar aldar að framtíðaruppbyggingin yrði við Hringbraut.

Hv. þingmaður spyr í öðru lagi hvaða skipulagslegu þættir gefi til kynna að reisa eigi þjóðarsjúkrahúsið við Hringbraut. Er því til að svara að sú staðsetning tryggir hraðast langþráðar nauðsynlegar umbætur í húsnæðismálum spítalans og þar með í heilbrigðiskerfinu. Um 55 þúsund fermetrar af núverandi húsnæði Landspítalans við Hringbraut eru þeirrar gerðar að nýta má áfram undir starfsemina. Kostnaður við nýbyggingar er um 600–800 þús. kr. á fermetra. Uppbyggingin á Hringbraut er því langhagkvæmasti kosturinn. Aðrar mögulegar staðsetningar kalla því á mun fleiri nýbyggingar og þar með aukinn framkvæmdakostnað.

Nálægðin við háskólana tvo skiptir einnig máli. Hv. þingmaður kom aðeins inn á það og þau álitamál sem sannarlega eru þar fyrir hendi en Háskólinn hefur lagt mjög mikla áherslu á þetta nábýli.

Hv. þingmaður spyr síðan í þriðja lagi hvað komi í veg fyrir að gerð verði ný staðarvalsgreining fyrir þjóðarsjúkrahúsið. Þá svara ég því þannig að ef skipuleggja ætti spítalann á nýjum stað þyrfti að gera breytingar á aðalskipulagi viðkomandi sveitarfélags, sem sagt Reykjavíkurborgar, og fara í deiliskipulagsgerð á grundvelli breytts aðalskipulags. Það þyrfti að vinna greiningar og fara í gegnum samráðsvinnu við hagsmunaaðila og útfæra tillögugerð. Samkvæmt mati þeirra tveggja aðila sem best þekkja til í þessum málum innan stjórnsýslu okkar, þ.e. Framkvæmdasýslu ríkisins annars vegar og Skipulagsstofnunar hins vegar, má ætla að ef hafist yrði handa við uppbyggingu á nýjum Landspítala á nýjum stað núna myndi það seinka afhendingu nýs spítala um 10–15 ár. Þetta er sundurliðað í frumathugunarstig, greiningarvinnu, áætlunargerð, samráð o.s.frv.

Virðulegur forseti. Á þeim réttu 16 árum sem liðið hafa frá því að ákvörðun um uppbyggingu Landspítalans við Hringbraut var tekin hafa níu heilbrigðisráðherrar setið við völd frá fimm stjórnmálaflokkum. Allir þessir ráðherrar hafa talað fyrir uppbyggingu Landspítalans við Hringbraut og líka sú sem hér stendur, þótt þeir hafi ekki verið á eitt sáttir um fjármögnun verkefnisins. Í umræðum á Alþingi í gegnum árin hefur ríkt nokkuð góð pólitísk sátt um málið en 56 þingmenn greiddu tillögu atkvæði sitt 16. maí 2014 sem hljóðaði svo, með leyfi forseta:

„… að ljúka eins fljótt og verða má undirbúningi að endurnýjun og uppbyggingu Landspítala við Hringbraut í Reykjavík og hefja framkvæmdir þegar fjármögnun hefur verið tryggð.“

Einn þessara 56 þingmanna var hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.