148. löggjafarþing — 17. fundur,  25. jan. 2018.

staðsetning þjóðarsjúkrahúss.

[11:11]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Virðulegur forseti. Við ræðum hagsmunamál fyrir alla þjóðina. Bestu þakkir fyrir frumkvæðið, hv. þm. Anna Kolbrún Árnadóttir. Það er ekki eins og rasað hafi verið að undirbúningi framkvæmda við þetta stóra og mikilvæga verkefni. Eins og kom skýrt fram hjá hæstv. ráðherra eru a.m.k. 16 ár síðan menn tóku hina endanlegu ákvörðun. Alþingi, ráðuneyti, nefndir, starfshópar, faghópar og rýnihópar hafa komið skipulega að þeirri vinnu og undirbúningi. Ráðherrar eftir ráðherra hafa unnið að þessum undirbúningi, haft efasemdir, tekið málið til skoðunar frá nýju sjónarhorni, látið gera skýrslur og skipt um skoðun í kjölfarið. Niðurstaðan er alltaf sú sama: Okkar færustu samgönguverkfræðingar segja spítalann geta annað þessari samgönguleið, af því að það hefur borið á góma.

Skipulagsstjóri hefur tjáð sig um málið og segir að margra ára greiningar liggi að baki staðarvali, niðurstaðan sé tvímælalaust sú að þessi sé bestur kosta, og beitir í því sambandi margvíslegum skipulagsröksemdum. Allir innviðir eru til staðar við Hringbraut, margar byggingar sem verða áfram notaðar. Barnaspítali Hringsins er t.d. tiltölulega nýtt hús.

Ég hef svo mikla trú á manninum og hugviti hans að ég er þess fullviss að hverjum steini hafi verið velt við í þessu stóra og mikilvæga hagsmunamáli til að komast á þann stað sem við erum nú, líka hagsmunum starfsmanna, en það er höfuðatriðið.

Við skulum snúa bökum saman og sameinast um að bæta umgjörð Landspítalans. Við megum engan tíma missa. Samhliða eigum við svo að sjálfsögðu að fara að undirbúa nýtt framtíðarsjúkrahús, og gera það strax, sjúkrahús framtíðarinnar, á nýjum stað og gefa okkur góðan tíma til þess, taka frá landsvæði og halda vöku okkar í þeim efnum. Við skulum ekki drepa málinu frekar á dreif.