148. löggjafarþing — 17. fundur,  25. jan. 2018.

staðsetning þjóðarsjúkrahúss.

[11:13]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Önnu Kolbrúnu Árnadóttur fyrir að hafa frumkvæði að þessari umræðu hér. Hún kom einmitt inn á það að á undanförnum misserum hefðu í auknum mæli heyrst efasemdarraddir. Ég ætla reyndar að draga það í efa því að það er ekkert á undanförnum misserum, það er á undanförnum áratugum næstum sem við höfum verið að ræða þetta mál. Ég get tekið undir það að ef við værum hérna fyrir tíu árum síðan þá hefði ég örugglega verið í efasemdarhópnum, ég hef verið það lengi. Af hverju erum við að hrúga öllum stærstu vinnustöðum höfuðborgarsvæðisins á vestasta odda þess, Háskólanum í Reykjavík, Háskóla Íslands og Landspítalanum – háskólasjúkrahúsi?

Það breytir ekki þeirri staðreynd að á síðustu tuttugu árum hefur þetta mál verið til umræðu og nokkrar staðarvalsnefndir hafa farið yfir þetta, erlendir sérfræðingar, það hefur verið rætt í þessum sal af forverum mínum, það hefur verið rætt í borgarstjórn Reykjavíkur, á vettvangi svæðisskipulags höfuðborgarsvæðisins. Úti um allt hefur þetta mál verið til umræðu. Einhverra hluta vegna hefur niðurstaðan alltaf verið sú að við þurfum að byggja upp við Hringbraut.

Þar sem ég hef meiri áhuga á því að við ræðum framtíðina held ég að við þurfum að einhenda okkur í þetta mikilvæga verkefni sem er að byggja upp Landspítala við Hringbraut, eða endurnýja þann húsakost. Búið er að klára sjúkrahótelið, meðferðarkjarnann þarf að klára hið fyrsta og svo rannsóknarhús. Ég veit ekki hversu langt við eigum að halda áfram. Ég held að mikilvægt sé að við horfum til framtíðar hvað það varðar að það mun líka þurfa aðra byggingu, aðra heilbrigðisstofnun á höfuðborgarsvæðinu eftir einhverja áratugi. Í ljósi þess hvað það tekur okkur langan tíma að ræða hlutina og komast að einhverri niðurstöðu er kannski ágætt að við förum í þá umræðu núna.

Níu heilbrigðisráðherrar úr fimm eða sex stjórnmálaflokkum hafa haft efasemdir, farið yfir málið og niðurstaðan hefur alltaf verið þessi. Farið hefur verið yfir málið hjá borgarstjórn Reykjavíkur líka og miklar efasemdir verið uppi úti um allan bæ en þetta hefur alltaf verið niðurstaðan. Einhendum okkur í að hugsa um framtíðina og einblínum á hana.