148. löggjafarþing — 17. fundur,  25. jan. 2018.

staðsetning þjóðarsjúkrahúss.

[11:22]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Forseti. Það ríkir víðtæk samstaða í þjóðfélaginu um að það þarf að endurnýja aðstöðu þjóðarsjúkrahússins. Landspítalinn starfar núna á tæplega 20 stöðum á höfuðborgarsvæðinu og megnið af þeim 100 byggingum sem spítalinn notar var byggt upp úr 1950. Í ljósi þeirra miklu breytinga sem hafa orðið á þessum tíma á hlutverki og almennri starfsemi sjúkrahúsa er löngu dagljóst að núverandi ástand svarar ekki kröfum nútímans, hvorki sjúklinga né starfsfólks, og hefur ekki gert lengi. Þess utan fylgir því gríðarlegur kostnaður að reka starfsemi Landspítalans á jafn óhagkvæman hátt og núverandi húsakostur hefur í för með sér.

Það er skoðun mín að halda eigi áfram uppbyggingunni við Hringbraut. Sú staðsetning er alls ekki óumdeild og ekki endilega fullkomin. Það fylgja því hins vegar margir kostir að byggja þarna upp þar sem hægt er að nota mikið af eldri byggingum sem fyrir eru. Þar vegur þyngst bygging barnaspítalans, þá liggur svæðið vel við almenningssamgöngum auk þess sem nálægðin við Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík og þekkingarsamfélagið sem er að byggjast upp í Vatnsmýrinni hlýtur að skipta máli fyrir háskólasjúkrahús í ljósi rannsókna og kennslu. Þessu til viðbótar vil ég nefna að það er mat fagaðila á borð við forstjóra Landspítalans og landlæknis að það sé einfaldlega hættuleg hugmynd að slá framkvæmdum við Hringbraut á frest meðan leitað er að öðrum kosti varðandi staðsetningu og hefja síðan undirbúningsferlið að nýju. Það er löngu kominn tími til að við tökum höndum saman og klárum einfaldlega þetta mál.

Hitt er líka ljóst að við getum bætt mjög allt verklag við ákvörðun opinberra fjárfestinga og framkvæmda. Í því sambandi má nefna þingsályktunartillögu sem undirritaður hefur lagt fyrir þingið ásamt fleiri þingmönnum um tryggingu gæða, hagkvæmni og skilvirkni opinberra fjárfestinga. Ég held að það væri lag að samþykkja þá þingsályktunartillögu og bæta vinnubrögðin.