148. löggjafarþing — 17. fundur,  25. jan. 2018.

staðsetning þjóðarsjúkrahúss.

[11:28]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Að beiðni þáverandi heilbrigðisráðherra skrifaði KPMG skýrslu um forsendur og hagkvæmni þess að byggja nýjan spítala við Hringbraut. Skýrslan var birt 31. ágúst árið 2015. Stuttu áður hafði Hagfræðistofnun Háskóla Íslands gert sjálfstæða úttekt á verkefninu og metið það ábótasamt frá þjóðhagslegu sjónarhorni. Fjallað er í skýrslu KPMG um kostina við staðsetningu spítalans við Hringbraut en einnig um gagnrýni á hana. Farið er yfir skipulagsmálin, byggingarkostnað, rekstrarkostnað, kostnað við fólksflutninga og umferðarálag. Sú stefna að halda áfram uppbyggingu á núverandi stað við Hringbraut var mótuð eftir að starfsnefnd heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra skilaði áliti sínu í janúar 2002, fyrir 16 árum, eins og hæstv. heilbrigðisráðherra benti á í ræðu sinni. Og enn ræðum við staðsetninguna.

Nefndin bar saman þrjár staðsetningar, Hringbraut, Fossvog og Vífilsstaði, og reyndist mat á stofnkostnaði við Hringbraut lægst. Síðan þá hefur verið unnið á grundvelli þeirrar stefnumótunar. Verkefnið hefur þróast mjög, farið í gegnum skipulagsferli og svæða-, aðal- og deiliskipulag var samþykkt árið 2013. Form bygginga og umfang tók miklum breytingum í gegnum skipulagsferlið en samstaða hjá borgaryfirvöldum hefur verið mikil um staðsetninguna við Hringbraut.

Byggingarkostnaður er metinn lægstur við Hringbraut af þeim kostum sem rýndir hafa verið. Hægt er að nýta mannvirki sem fyrir eru og byggja nýjan spítala sem viðbót í áföngum og nálægð við Háskóla Íslands og fyrirhuguð uppbygging heilbrigðisvísindasviðs á svæðinu er líka talin mikill kostur. Nánast allir stjórnmálaflokkar hafa komið að þeirri ákvörðun að byggja spítalann við Hringbraut. Það er mikilvægt að byggingin rísi sem fyrst, það er mikilvægt fyrir starfsfólk, það er mikilvægt fyrir sjúklinga (Forseti hringir.) og ákvörðunin hefur verið tekin að vel athuguðu máli.