148. löggjafarþing — 17. fundur,  25. jan. 2018.

staðsetning þjóðarsjúkrahúss.

[11:30]
Horfa

Óli Björn Kárason (S):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Það er nú einu sinni þannig að það er varla sú bygging reist á Íslandi að við deilum ekki um staðsetningu eða útlit; kirkjur, grunnskóla, sjúkrahús, menningarstofnanir o.s.frv. Þessi umræða er bara hluti af þeim menningararfi okkar að deila um hús. Við elskum það að deila.

Auðvitað er eðlilegt að alvarlegra spurninga sé spurt um það hvað við erum að gera þegar um er að ræða eina stærstu eða líklega stærstu framkvæmd á sviði heilbrigðismála síðustu áratuga. En deilurnar eiga að einhverju leyti rætur sínar í syndum fyrri tíma, þeirri staðreynd að við erum ekki búin að klára verkefnið sem við áttum að vera búin að fyrir löngu síðan, fyrir áratug eða meira, að byggja nýtt háskólasjúkrahús. Við ættum fremur núna að vera að ræða um hvar við ætlum að staðsetja og með hvað hætti við ætlum að byggja háskólasjúkrahús 21. aldarinnar á næstu 10, 15, 20 árum eða svo. En við höldum hins vegar deilunum áfram. Það er auðvitað þannig að það er miklu einfaldara og auðveldara að deila um útlit húsa og staðsetningu þeirra heldur en hvernig við ætlum að standa að skipulagi heilbrigðiskerfisins. Það er miklu einfaldari deila og kallar ekki á eins djúpa umræðu. Við forðumst að taka umræðuna um hvernig við ætlum að skipuleggja heilbrigðiskerfið, hvernig við ætlum að skipuleggja það út frá hinu nýja háskólasjúkrahúsi. Ég óttast að ef að menn halda áfram að ræða um staðsetningu háskólasjúkrahúss, og ég get skilið efasemdirnar, þá muni það bitna á miklu mikilvægara máli sem er að við förum að átta okkur á því hvernig við ætlum að byggja upp heilbrigðiskerfið á Íslandi og skipulag þess.