148. löggjafarþing — 17. fundur,  25. jan. 2018.

staðsetning þjóðarsjúkrahúss.

[11:40]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Forseti. Ég verð að segja að ég efast um að nokkur bygging sem yfir höfuð gegnir mikilvægu hlutverki í íslensku samfélagi myndi þola jafn ítarlega skoðun og endurskoðanir á staðsetningu sinni og Landspítalinn við Hringbraut, nýbyggingin, hefur þolað undanfarin ár og áratugi. Það er þá kannski helst Hallgrímskirkja sem við gætum sammælst um að standi á góðum stað.

Ég ætla ekki að gagnrýna það að aðrir hafi þá skoðun að annað staðarval fyrir uppbyggingu Landspítalans en Hringbraut hefði verið betra. Ég er einfaldlega ósammála. Það væri hægt að rífast um þetta í fjölda ára, í áratugi, við erum fjári góð í því eins og komið hefur ítrekað fram. Spurningin er: Hvenær er nóg komið og fyrir hvern og hverja er verið að endurnýja húsakost Landspítalans? Það er búið að margendurskoða í hátt í tvo áratugi. Síðan vegur einfaldlega þungt að komið hefur fram í máli aðila sem ég tek mark á, forstjóra Landspítalans, landlæknis og fleiri, að hættulegast af öllu sé að tefja frekar þetta verkefni.

Við horfum á áætlanir og spár sem segja fyrir um að gangi verkefnið eftir svona séum við að ræða um þrjá áratugi miðað við spár um fólksfjölgun þar til við þurfum að fara að huga að nýrri byggingu. Eins og við vitum vanmetum við flestar spár, þar með talið fólksfjöldaáætlanir og ferðamenn, þannig að við skulum tala um 20 ár. Er ekki ráð að við beinum kröftum okkar í það að sameinast um faglega úttekt og mat á staðsetningu næsta spítala og reyna kannski að standa þar að verki með eilítið öðrum hætti? Sé tími afgangs, tölum þá um stefnumótun í íslensku heilbrigðiskerfi. Látum þessu lokið hérna. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)