148. löggjafarþing — 17. fundur,  25. jan. 2018.

staðsetning þjóðarsjúkrahúss.

[11:44]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir góða umræðu. Fyrst af öllu vil ég segja, af því að hér er talað um að þingsályktunartillögu hafi verið breytt á árinu 2014, að það er rétt. Hún breyttist í meðförum þingsins en niðurstaðan varð að ríkisstjórninni var falið að ljúka eins fljótt og verða mætti undirbúningi á endurnýjun og uppbyggingu Landspítala við Hringbraut í Reykjavík og hefja framkvæmdir þegar fjármögnun hefði verið tryggð.

Hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson greiddi atkvæði með þeirri tillögu og Sigurður Páll Jónsson raunar líka, nú þingmaður Miðflokksins.

Þetta er staðreynd.

Fólk hér talar um að byggingar séu eitt og þjónusta annað. Ég myndi gjarnan vilja kanna hvort starfsfólk Landspítalans taki undir það, fólk sem býr við algjörlega óbærilegt starfsumhverfi á köflum, fólk sem heldur því fram að kannski það mikilvægasta í öllu sé að upplifa að stjórnvöld séu einhuga um framtíðarsýn fyrir uppbyggingu Landspítalans við Hringbraut til þess að geta haldið áfram að þróa öflugt heilbrigðiskerfi á heimsmælikvarða á Íslandi. Ég spyr, virðulegur forseti: Er fólki alvara sem kemur hingað og talar fyrir því að hætta við að hefja uppbyggingu við Hringbraut nú í sumar? Er fólki alvara með að hverfa eigi frá því að hefja uppbyggingu meðferðarkjarnans á næstu mánuðum?

Er fólki alvara með svona málflutning og að halda því fram að það snúist um að taka nýja ákvörðun sem sannarlega að mati Framkvæmdasýslu ríkisins og Skipulagsstofnunar muni fresta uppbyggingu kjarnahúsnæðis íslenska heilbrigðiskerfisins um 10–15 ár? Er fólki alvara að bjóða heilbrigðisstéttunum á Íslandi, heilbrigðisvísindum og veiku og slösuðu fólki (Forseti hringir.) upp á þann málflutning? Ég spyr, virðulegi forseti.

Ég segi: Það er ekki verjandi. Ég tek undir að það er hættuleg hugmynd að stoppa á þessum tímapunkti, íslenskt heilbrigðiskerfi getur ekki beðið. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)