148. löggjafarþing — 17. fundur,  25. jan. 2018.

staða einkarekinna fjölmiðla.

[11:53]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Óla Birni Kárasyni fyrir að efna til umræðu um stöðu einkarekinna fjölmiðla og ég vil þakka nefnd um bætt rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla kærlega fyrir störf sín.

Það er bæði tímabært og nauðsynlegt að Alþingi taki fjölmiðlamál til umræðu, enda mikilvægt málefni sem varðar menningu okkar og lýðræði. Það er einnig í samræmi við það sem við höfum orðið vitni að alls staðar annars staðar í heiminum að stjórnvöld eru farin að hafa mun meiri áhuga og fylgjast mun betur með þeirri hröðu þróun sem hefur átt sér stað undanfarin ár í fjölmiðlamálum. Þar hafa samfélagsmiðlarnir, Google og efnisveitur á borð við Netflix og Spotify gerbreytt rekstrarumhverfi fjölmiðla. Stærsta breytingin er ef til vill sú að smám saman eru notendur fjölmiðlaefnis að verða eigin dagskrárstjórar og miðlun fjölmiðlaefnis verður í gegnum tölvur, síma og önnur snjalltæki.

Fjölmiðlar eru eitt mikilvægasta tæki lýðræðissamfélagsins og breytingar á umhverfi þeirra geta haft bein áhrif á hvernig okkur tekst til við að halda því lýðræðisfyrirkomulagi sem við kjósum. Aðgerðir stjórnvalda víða um heim hafa fyrst og fremst beinst að því markmiði að tryggja að fólk hafi aðgang að fjölbreyttum fjölmiðlum sem miðla samfélagslegu efni, fréttum og þess háttar, sem gerir því kleift að verða virkir þátttakendur í lýðræðissamfélaginu. Þar við bætist sú ósk eða krafa að fjölmiðlar leggi sitt af mörkum til að viðhalda og efla menningu og tungumál, hver á sínu svæði.

Einkareknir fjölmiðlar hafa fundið fyrir þessum hröðu breytingum og eiga fullt í fangi með að aðlaga rekstur sinn að þeim. Sú aðlögun á sér stað alls staðar en með mismunandi hætti því að umhverfi fjölmiðla, fjölmiðlavenjur og væntingar eru mismunandi. Það er því virkilega ánægjulegt að ræða nýútkomna skýrslu starfshóps um rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla ásamt tillögum og greinargerð. Í greinargerðinni eru upplýsingar um stöðu fjölmiðla, bæði hér á landi og erlendis, ásamt tillögum í sjö liðum um aðgerðir til að bæta stöðu fjölmiðla. Þær snúa m.a. að stöðu Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði, skattalegu umhverfi, textun og talsetningu og endurgreiðslu framleiðslukostnaðar á tilteknu efni.

Það má segja að skýrslan marki ákveðin þáttaskil í umræðunni um rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla og mun nýtast sem gott innlegg í vinnu við að bæta rekstrarumhverfi þeirra. Ég tel mikilvægt að unnið verði áfram með þær tillögur sem lagðar eru fram í skýrslunni og lagt mat á áhrif þeirra, til að mynda kostnað sem falla myndi á ríkissjóð, ávinning fjölmiðlanna sjálfra, áhrifa á tungumálið og fleira. Atriði í skýrslunni ríma við sáttmála núverandi ríkisstjórnar en ríkisstjórnin ætlar að bæta rekstrarumhverfi fjölmiðla, m.a. með því að útfæra breytingar á skattumhverfi þeirra. Ég hef talað fyrir því að nálgast vinnu með eflingu starfsumhverfis tónlistar, bókmennta og fjölmiðla heildstætt, m.a. með því að setja íslenskuna í öndvegi.

Okkur hefur skort heildstæða stefnu í fjölmiðlamálum. Sú skýrsla sem kynnt er í dag er fyrsta skrefið í þeirri vinnu. Stefnumótun þarf að eiga sér stað með breiðri aðkomu hagsmunaaðila, allra stjórnmálaflokka og almennings því að við verðum að reyna að finna leið til samkomulags um starfsemi fjölmiðla og hugsanlegan stuðning ríkisins við lýðræðis- og menningarhlutverk þeirra.

Það er hægt að styðja við fjölmiðla með margs konar hætti. Fyrir þeim stuðningi geta verið mjög góðar og gildar ástæður. Þess vegna tel ég rétt að við byrjum á því að móta okkur stefnu í fjölmiðlamálum og tökum afstöðu til þeirra, bæði til þeirra atriða sem nefnd eru í skýrslunni og fleiri sem geta verið á borðinu. Markmið þeirra er að bæta rekstrarumhverfi fjölmiðla.

Ég tel mjög skynsamlegt að byrja á virðisaukaskattinum og hef sett vinnu af stað hvað það varðar. Annað sem varðar þau efnisatriði sem eru í skýrslunni þarf að skoða betur. Það þarf að kostnaðarmeta þau og meta áhrifin sem þau hafa á rekstrarumhverfi fjölmiðla.

Að lokum vil ég segja að nú eru rúm 30 ár síðan fjölmiðlun varð frjáls á Íslandi en stærstu breytingar á rekstrarumhverfi þeirra og starfsskilyrðum hafa orðið núna á örfáum árum. Við sjáum ekki fyrir endann á þeim. Við verðum að vera vakandi og tilbúin til að grípa til aðgerða til að tryggja að fólkið í landinu hafi aðgang að góðu og vönduðu fjölmiðlaefni sem er ein af forsendum þess að hér sé virkt lýðræði.