148. löggjafarþing — 17. fundur,  25. jan. 2018.

staða einkarekinna fjölmiðla.

[12:16]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Frú forseti. Þegar ég undirbjó umræðu um stöðu einkarekinna fjölmiðla í morgun var ég svo bláeyg að ég hélt að ég væri í alvöru að fara að ræða hugmynd málshefjanda, hv. þingmanns Sjálfstæðisflokksins, Óla Björns Kárasonar, um stöðu einkarekinna fjölmiðla og bága stöðu þeirra. Hafði ég því skoðað vandlega skýrslu þá sem kom út í morgun og skoðað tillögurnar sem bárust þar og velt þeim fyrir mér og leitað mér frekari upplýsinga, þrátt fyrir að tíminn væri stuttur. En þegar við upphaf ræðu hv. þingmanns var alveg ljóst að tilgangur hans í þessari umræðu var alfarið að hjóla í almannaútvarp okkar, Ríkisútvarpið.

Hann talaði þannig um þessa menningarstofnun okkar, okkar sameiginlegu menningarstofnun, þessa ævagömlu stofnun sem nýtur algerrar sérstöðu í framleiðslu upplýsinga og menningarefnis hér á landi, að maður gapir bara. Mér fannst alveg hörmulegt, verð ég að segja, að hlusta á málflutning þingmannsins, sem virðir augljóslega í engu það gríðarmikla menningarstarf sem starfsfólk þeirra þriggja stöðva sem reknar eru hjá Ríkisútvarpinu, RÚV Sjónvarp, Rás 1 og Rás 2, innir af hendi hvern dag árið um kring.

Það er enginn fjölmiðill á pari við þá þrjá fjölmiðla þegar kemur að upplýsinga- og menningarhlutverki. Ég skil ekki alveg af hverju við getum ekki einhent okkur í að efla stöðu einkarekinna fjölmiðla án þess að þurfa að vega svo mjög að þessari stofnun okkar, þessari sameiginlegu eign. Ég átta mig ekki alveg á því. Það eru fjölmargar góðar tillögur í þeirri skýrslu sem kom í morgun. Ég vil hvetja menntamálaráðherra til að fara fljótt og vel í þá vinnu sem þar er verið að leggja á borð fyrir okkur en bið um leið fólk að gæta hófs í orðum sínum þegar kemur að Ríkisútvarpinu (Forseti hringir.) og því starfsfólki sem þar vinnur.