148. löggjafarþing — 17. fundur,  25. jan. 2018.

ÖSE-þingið 2017.

87. mál
[13:07]
Horfa

Halldóra Mogensen (P) (andsvar):

Forseti. Ég velti ástæðunum fyrir mér, hvort mögulega sé um að ræða skort á þekkingu. Nú hafa nágrannar okkar leyniþjónustu til að leita uppi upplýsingar varðandi svona ferla. Við höfum ekkert svoleiðis, þannig að mögulega skortir okkur þekkinguna.

Ég spyr hv. þingmann hvort hann sé sammála því að tími sé kominn til að við sækjum okkur þessa þekkingu, hvernig sem við gerum það, hvort það væri þá í samstarfi við nágrannaþjóðir eða hvort þessa sérfræðiþekkingu sé að finna hér heima. Við þurfum að sækja okkur þessa þekkingu og fara að setja upp ferla. Heimurinn er að breytast. Við sjáum alla þá gagnaleka sem verið hafa seinustu ár og hvernig þjóðir í kringum okkur hegða sér varðandi friðhelgi einkalífs og brot á henni.

Þurfum við ekki að fara að skoða þetta betur? Ég veit ekki hvernig best væri að snúa sér í þessum málum, hvort þetta geti orðið þingmál eða skýrsla. Kannski hv. þingmaður, sem hefur meiri reynslu í þessu en ég, geti stungið upp á einhverri leið sem gæti tryggt að farið yrði í þá ferla að laga þetta mál.