148. löggjafarþing — 17. fundur,  25. jan. 2018.

Vestnorræna ráðið 2017.

85. mál
[13:50]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Frú forseti. Mig langar að að koma inn í þessa umræðu sem fulltrúi í Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins til nokkurra ára. Það samstarf er mjög gefandi og áhugavert og margt er skylt með þeim þjóðum sem að því standa hér á norðurslóðum, Íslandi, Færeyjum og Grænlandi. Það eru áskoranir sem snerta okkur íbúa á norðurslóðum eins og kom fram í skýrslu hv. formanns Íslandsdeildar, hv. þm. Guðjóns Brjánssonar; áskoranir í loftslagsmálum og súrnun sjávar eru mikið til umræðu um þessar mundir og við á norðurslóðum þurfum virkilega að hafa áhyggjur af því. Hvergi er eins mikil hækkun á hitastigi í andrúmsloftinu og hér á norðurslóðum og það hefur áhrif á hafið og lífríki þess, sem þessar þjóðir byggja afkomu sína á. Við þurfum að hafa áhyggjur af mengun, sérstaklega plastmengun og örplasti hér í Norður-Atlantshafi. Það er því ekki undarlegt að komið hafi fram tillaga á því sviði á ársfundinum sem haldinn var hér í Reykjavík, hér á Alþingi Íslendinga, í fyrsta skipti eins og fram kom í ræðu hv. formanns Íslandsdeildar.

Þingsályktunartillagan um örplastið og plast í hafinu hljóðaði á þá leið að rannsaka ætti innihald örplasts í sjávarafurðum í Norður-Atlantshafi og magn plastmengunar í hafi. Það er tillaga sem verður borin upp á þessum þremur þjóðþingum og fær vonandi gott brautargengi og eftirfylgni því að þetta er mikið áhyggjuefni og grafalvarlegt mál. Það er ekki bara að fiskar í hafinu séu farnir að éta plast heldur eru neytendur í landi líka hugsanlega farnir að neyta fiskafurða sem innihalda plast. Það hefur mikil áhrif á lýðheilsu og heilsu fólks í framhaldinu og því er brýnt að taka þetta mál föstum tökum.

En hér á norðurslóðum eru vissulega tækifæri í ferðaþjónustu. Það er ýmislegt sem við þurfum að standa saman um. Þess vegna er mjög gott að við höfum fengið áheyrnarfulltrúa í Norðurskautsráðinu og séum þátttakendur í Hringborði norðurslóða. Þar vorum við með málstofu um sjálfbærni á síðasta ári og settur var á laggirnar vinnuhópur um sjálfbæra þróun. Meðal annars var lögð áhersla á forvarnir gegn áfengis- og vímuefnanotkun á norðurslóðum, það er auðvitað eitt vandamál sem þessar þjóðir glíma við. Þar getum við miðlað af þekkingu okkar og reynslu og líka lært af grönnum okkar.

Ég tel að mjög vel hafi tekist til við þennan ársfund hér á Íslandi 31. ágúst til 1. september. Góð þátttaka var af hálfu fulltrúa Íslands á fundinum og heppnaðist hann í alla staði mjög vel. Vel má vera að einhverjum finnist það léttvægt að lögð hafi verið fram tillaga um að gerð yrði norræn söngbók á þremur tungumálum. Þetta eru ekki stór málsvæði, en því brýnna að halda þeim uppi og þá um leið sönghefð. Það er eitt af því sem hefur tengt þessar þjóðir saman í samstarfinu, söngur. Það er ekki síður mikilvægt að fólk tengist innbyrðis, maður er manns gaman. Ég held að söngurinn tengi alla, hvort sem er í þessu samstarfi eða öðru. Ég held að það sé frekar sjaldgæft að eins mikið sé sungið í samstarfi erlendra þjóða, sem við erum þátttakendur í, og í samstarfi Vestnorræna ráðsins. Það er af hinu góða að við deilum gleði og deilum því sem brennur á þessum þjóðum um leið. Þannig tengjumst við sterkari böndum og vinnum að þeim verkefnum sem frændþjóðir.

Ég vil líka geta þess sem mér finnst áhugavert og rætt var á þemaráðstefnu síðastliðið haust í Færeyjum. Vestnorræna ungmennaráðið kom að þeirri þemaráðstefnu. Það er til þess að gera nýstofnað og skipað fulltrúum frá ungmennasamtökum stjórnmálaflokka á Vestur-Norðurlöndum. Það hélt sinn fyrsta fund í október 2016 á Íslandi og samþykkti þá fimm ályktanir sem voru kynntar fyrir Vestnorræna ráðinu. Mér fannst þær ályktanir falla mjög vel í kramið og var ánægjulegt að heyra að raddir unga fólksins sameinuðu þessar þjóðir. Það var sammála um hvað væri brýnt að gera. Benda má á að mikið var rætt um byggðamál, að bjóða ókeypis aðgengi að sálfræðiþjónustu fyrir ungt fólk, aukið námsframboð á Vestur-Norðurlöndum og að auka húsnæðisframboð fyrir ungt fólk. Þetta brennur líka á nágrönnum okkar. Ný kynslóð talar sömu tungu í þessum efnum. Það verður áhugavert að sjá tillögur ungmennaráðs sem við getum síðan flutt áfram til okkar þjóðþinga. Vonandi verður þeim hrundið í framkvæmd.

Ég ætla ekki að hafa þetta mál mitt mikið lengra. Ég vil kannski nefna, þar sem umræða um olíuvinnslu hefur verið á dagskrá úti í samfélaginu og þátttaka okkar í rannsókn á Drekasvæðinu á olíu og gasi, að ég tel mjög brýnt að Ísland beiti sér fyrir því að jarðefnaeldsneyti verði ekki unnið á norðurslóðum. Ég held að það sé mikið hagsmunamál fyrir þessar þjóðir að við förum ekki að opna slíkt Pandóru-box. Við erum aðilar að loftslagssamkomulagi Sameinuðu þjóðanna, samkomulaginu sem var gert í París, og eigum að leggja okkar af mörkum. Íbúar norðurslóða og þessara landa eiga mikið undir því að hafsvæði okkar mengist ekki. Við eigum ekki að taka neina áhættu í þeim efnum. Það er mjög mikilvægt fyrir okkur á norðurslóðum að vinna gegn gróðurhúsaloftslagsbreytingum sem hafa verið og eru alltaf að aukast og súrnun sjávar í kjölfarið. Ég held að þetta sé eitt af þeim málum sem verður efst á baugi í umræðunni, hvort sem er í Norðurskautsráði, Vestnorrænu samstarfi eða á þeim vettvangi sem málefni norðurslóða verða til umræðu.

Ég hlakka til að taka þátt í þeirri þemaráðstefnu sem fram undan er í Ilulissat í næstu viku. Þar ræðum við meðal annars áskoranir og framtíð í ferðaþjónustu í þessum löndum. Ég veit að það mun verða gott og árangursríkt starf. Góður fundur er fram undan hjá okkur í Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins með þessum nágrannaþjóðum okkar.