148. löggjafarþing — 17. fundur,  25. jan. 2018.

Vestnorræna ráðið 2017.

85. mál
[14:10]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmönnum fyrir umræðuna um ársskýrslu Vestnorræna ráðsins fyrir árið 2017. Fyrir nýgræðing í Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins horfir þetta við mér sem afar spennandi vettvangur. Augljóslega eru áskoranirnar margar, hagsmunirnir eru augljóslega sameiginlegir fyrir þessi þrjú vestnorrænu lönd. Maður skynjar fljótt hversu náin við erum þó svo að við ferðumst ekki ýkja mikið til Grænlands eða Færeyja. Við ættum að gera miklu meira af því.

Þar er verkefni að vinna, hvort sem það á við um loftið, hafið eða varðandi tungu og menningu. Þar erum við saman á báti, þó að Íslendingar séu á sína vísu stóri bróðirinn í þessu samstarfi. Við finnum til þeirrar ábyrgðar. Við erum kannski fremst meðal jafningja og leggjum meira af mörkum hvað varðar rekstur og starfsemi ráðsins en hin löndin.

Eins og ég nefndi í skýrslu minni hefur framkvæmdastjóri ráðsins aðsetur á Íslandi. Vestnorræna ráðið nýtur góðs af nálægðinni við Alþingi og velvilja og húsakost og ýmislegt annað.

Það þarf margar hendur til að starfsemi blómgist og sé unnin af metnaði. Þó að síðasta kjörtímabil hafi verið sögulega stutt vann fráfarandi formaður mikið og gott starf og var öflugur talsmaður. Framkvæmdastjóri okkar hefur látið af störfum en búið er að ráða nýjan framkvæmdarstjóra sem tekur senn til starfa. Inga Dóra Markussen hefur verið framkvæmdastjóri undanfarin ár en er nú horfin til annarra starfa, á Grænlandi. Það er ástæða til að þakka henni sérstaklega fyrir öll þau góðu störf sem hún vann. Hún var mikill og góður talsmaður fyrir allt okkar svæði. Við væntum auðvitað mikils af nýjum framkvæmdastjóra, sem heitir Sigurður Ólafsson.

Svo hlakka ég stöðugt meira til að eiga samstarf við félaga mína í Íslandsdeildinni. Þetta er úrvalsfólk sem hefur sumt mikla reynslu af starfinu innan ráðsins. Aðrir eru svona nýgræðingar eins og ég.

Ég læt hér með lokið umfjölluninni um skýrslu Vestnorræna ráðsins.