148. löggjafarþing — 17. fundur,  25. jan. 2018.

Fríverslunarsamtök Evrópu og Evrópska efnahagssvæðið 2017.

84. mál
[14:31]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa ágætu fyrirspurn. Eins og ég nefndi hefur umræðan hjá þessari nefnd verið algerlega undirlögð af umræðum um Brexit. Það gæti tekið marga daga að rifja upp allt sem hefur verið sagt um það mál. Við höfum m.a. átt samtöl við Evrópuþingmenn á borð við Philippe Lamberts, Elmar Brok og Danuta Hübner um þetta. Við höfum átt marga góða fundi m.a. með Catherine Stihler frá Skotlandi sem hefur mjög sterka skoðun um að Bretland eigi að vera áfram í Evrópusambandinu. Við höfum líka hitt Evrópuþingmenn, Breta, sem eru mjög fylgjandi því að fara út. Auðvitað er ástandið þannig að umræðurnar eru einhvern veginn hipsum happs vegna þess að enginn botn er kominn í málið.

Í þeim umræðum sem hafa verið meira milli þingmanna Íslands, Sviss, Noregs og Liechtensteins hafa frekar verið vangaveltur um hvort það séu einhver tækifæri eða hvort þetta sé bara neyðarástand. Almenni fílingurinn eins og ég hef upplifað hann hefur ekki verið þannig að fólk fagni þessu neitt sérstaklega mikið, enda setur þetta mörg fríverslunarmál í uppnám, sérstaklega gagnvart Bretlandi, og tefur líka fyrir vinnslu annarra mála.

Það hefur verið rætt m.a. um þá tillögu Breta sem hefur komið upp óformlega í Bretlandi um að Bretland gangi í EFTA. Þó svo að hæstv. utanríkisráðherra Íslands hafi tekið vel í það hafa þingmenn í nefndinni verið mjög margsaga um það, ekki verið allt of spenntir en ekki viljað útiloka neitt heldur. Þannig að þetta er mjög djúp umræða og erfitt að gera grein fyrir henni á tveimur mínútum.