148. löggjafarþing — 17. fundur,  25. jan. 2018.

Fríverslunarsamtök Evrópu og Evrópska efnahagssvæðið 2017.

84. mál
[14:35]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Frú forseti. Já, ég notaði orðið neyðarástand kannski óvarlega, enda er það svona á hinum endanum á rófinu. Það er auðvitað enginn búinn að lýsa yfir neyðarástandi og ekkert tilefni til. En þetta er áhyggjuefni að mörgu leyti og að mjög mörgu að huga hjá Bretum sem hafa miklar áhyggjur af því hvernig fari fyrir loftferðasamningum, aðild þeirra að Euratom, Kjarnorkubandalagi Evrópu, og fleiru, svo ekki sé talað um þessi fjölmörgu fríverslunarmál.

Það er ástæða til að velta því fyrir sér sem hv. þingmaður nefnir. Það er spurning hvar við leggjum áhersluna. Nú heimsótti nefndin sendiráð Íslands í Brussel og talaði við það frábæra starfsfólk sem er þar. En það sem var eftirtektarverðast var hvað þau eru fá. Nú er sambærilegt sendiráð Noregs í Brussel með 70 starfsmenn. Hjá okkur eru þeir ekki nema 14 að mig minnir í Brussel. Það gæti auðvitað hafa breyst örlítið og það stóð jafnvel til að fækka um einn til að styrkja betur sendiráðið í London. Ég veit ekki hvernig það hefur farið. En það sýnir svolítið áhyggjuleysi gagnvart þessum mikilvægasta fríverslunarsamningi sem Ísland er aðili að, þ.e. EES-samningnum. Þrátt fyrir innleiðingarhallann á ýmsum tilskipunum. Eitt dæmi í því samhengi er pósttilskipunin sem Ísland hefur dregið útfærslu á mjög lengi og núna eru hin EES-löndin orðin svolítið þreytt á að bíða eftir okkur. Ég held að það sé full ástæða til að leggja töluvert meiri áherslu á EES-samninginn. Auðvitað þurfum við að gæta hagsmuna (Forseti hringir.) Íslands gagnvart Bretlandi og því sem er að gerast þar en þetta er náttúrlega stórt og flókið mál. Ég vona að við getum rætt þetta meira í framtíðinni.