148. löggjafarþing — 17. fundur,  25. jan. 2018.

Alþjóðaþingmannasambandið 2017.

95. mál
[14:44]
Horfa

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég fjalla hér um skýrslu Alþjóðaþingmannasambandsins, IPU, fyrir árið 2017. Af þeim fjölmörgu og fjölþættu málum sem fjallað var um á vettvangi sambandsins á árinu 2017 eru kannski nokkur atriði sem Íslandsdeildinni þykja standa upp úr með tilliti til hver markmið sambandsins eru, en þau eru að vinna að friði og samstarfi meðal þjóða og treysta lýðræði og þjóðkjörinna fulltrúa í sessi.

Fyrst er kannski að nefna umræðu um það hvernig efla megi menningarlega fjölhyggju og frið með samræðum um trúarleg og samfélagsleg ágreiningsefni. Lögð var mikil áhersla á fundum sambandsins á mikilvægi þess að koma í veg fyrir umburðarleysi, vantraust og ofbeldi. Jafnframt var ályktað um aukið alþjóðlegt samstarf um ný markmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun með áherslu á konur sem drifkraft þróunar. Þá var mikið rætt um stöðu kvenna í þjóðþingum heims og hvernig auka megi aðgengi þeirra að þátttöku í stjórnmálum og fór fram umræða um hvernig hægt væri að berjast gegn misrétti í heiminum og þjóðþing heims hvött til að beina sjónum sínum í auknum mæli að jafnréttismálum sem misjafnlega er að staðið meðal þjóðþinga heims.

Á vorþingi sambandsins fór einnig fram utandagskrárumræða um alþjóðlegar aðgerðir í baráttunni gegn hungursneyð í nokkrum löndum Afríku og Jemen. Þá var enn fremur í brennidepli á árinu umræða um hlutverk þjóðþinga við að virða meginregluna um að hlutast ekki til um innanlandsmálefni fullvalda ríkja. Einnig var ályktað um fjölbreytileika mannlífs í tilefni af 20 ára afmæli alþjóðlegrar yfirlýsingar um lýðræði og rík áhersla var sérstaklega lögð á jafnrétti kynjanna, frjálsar kosningar, sjálfstæði og frelsi fjölmiðla og verndun réttinda minnihlutahópa í samfélaginu.

Af öðrum stórum málum sem við getum nefnt úr skýrslu Íslandsdeildar Alþjóðaþingmannasambandsins sem voru tekin til umræðu í fyrra má nefna hryðjuverkastarfsemi og baráttuna gegn henni, stríðið í Sýrlandi, alvarlegt ástand mannúðarmála, málefni innflytjenda og flóttamanna, lýðræði og ungt fólk, og við tókum einnig um umræðu um netvæðingu þjóðþinga og samfélagsmiðla.

Þá ber að nefna mikilvægt starf Alþjóðaþingmannasambandsins við að efla lýðræði, en mörg aðildarþing sambandsins eru enn ekki lýðræðislega kjörin og í sumum fer ekkert eiginlegt löggjafarstarf fram. Sem dæmi um slíkt starf sambandsins árið 2017 má nefna svæðisbundnar málstofur á vegum sambandsins um þátttöku ungs fólks í stjórnmálum í Afríku. Enn fremur gefur Alþjóðaþingmannasambandið út handbækur og skýrslur fyrir þingmenn til að hjálpa þeim til að hafa áhrif í ólíkum málaflokkum. Í fyrra var m.a. gefin út skýrsla um helstu stefnur varðandi málarekstur og lagasetningu í tengslum við loftslagsbreytingar.

Annars er fjallað nánar í skýrslunni um fundina sem haldnir voru árið 2017 m.a. í New York, í Bangladesh, einnig héldum við samráðsfundi í Keflavík og Reykjavík. Síðan var fundur í Rússlandi í Pétursborg.

Í Íslandsdeild Alþjóðaþingmannasambandsins voru auk mín í fyrra Birgir Ármannsson formaður og Birgitta Jónsdóttir varaformaður. Í nýkjörinni nefnd Íslandsdeildarinnar er ég formaður, þar situr einnig Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Ágúst Ólafur Ágústsson.

Skýrslan liggur frammi til nánari kynningar. En ég vil einnig þakka nefndarritara okkar sérstaklega fyrir, Örnu Bang, sem hefur unnið ómetanlegt starf með okkur þingmönnum á síðasta ári.