148. löggjafarþing — 17. fundur,  25. jan. 2018.

dánaraðstoð.

91. mál
[15:16]
Horfa

Flm. (Bryndís Haraldsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka andsvarið. Varðandi kostnaðarþátttöku tek ég enn og aftur undir það að ég held að það sé áhugavert að horfa á það í þessu samhengi. Það gæti jafnvel verið góður grunnur að enn frekari umræðu um okkar ágæta heilbrigðiskerfi og kostnaðarþátttökuna þar, þegar við erum að miða okkur við önnur lönd.

Ég get sagt það skýrt fyrir mitt leyti að þó ég sé hlynnt því að við skoðum þessa leið þá er mörgum spurningum ósvarað. Ég get alveg sagt það skýrt fyrir mitt leyti að ég mundi aldrei vilja að kostnaður hefði með einhverjum hætti áhrif á slíka ákvörðun. Þess vegna tel ég mjög mikilvægt að horfa til þess að viðkomandi þurfi að fara í gegnum skýrt ferli og það sé afmarkað við miklar þjáningar og kvalir. Þá er það fyrst og fremst upplifun sjúklingsins sjálfs en ekki aðstandenda eða annarra aðila úti í bæ, eins og til að mynda, ef ég skil þetta rétt, er í hollenska kerfinu.

Þessi þingsályktunartillaga er fyrst og fremst hugsuð til þess að fá þessar upplýsingar fram, hvernig þetta er annars staðar, hver reynslan er þar. En ég veit til þess að umræðan, sérstaklega í Hollandi, var með sama hætti og sömu sjónarmið komu upp og var verið að vekja máls á hér. Það er alveg eðlilegt.

Hvað varðar sjúklingasamtökin þá tel ég rétt að fá fram afstöðu þeirra. Ég geri ráð fyrir því að hún gæti birst í umsögn um þingsályktunartillöguna og hvet nefndina til að hafa það í huga. Það er kannski ekki síður til þess að fá þessa umræðu almennt inn í samfélagið að við flutningsmenn leggjum þessa tillögu hér fram. Það þarf auðvitað breiða þátttöku í því samtali.