148. löggjafarþing — 18. fundur,  30. jan. 2018.

geðheilbrigðismál.

[13:35]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf):

Herra forseti. Nú berast fregnir af því að taka eigi fjármagn frá farsælu teymi á sviði geðheilbrigðisþjónustu. Um er að ræða teymið Geðheilsa – eftirfylgd sem starfað hefur náið með félagasamtökunum Hugarafli sem hlotið hafa mikið lof fyrir störf sín í þjónustu við þá aðila sem glíma við andlega erfiðleika.

Verði starfsemi Geðheilsu – eftirfylgd lokað mun það setja starfsemi Hugarafls í mikið uppnám. Teymið hefur verið starfrækt í 15 ár og sífellt berast fleiri niðurstöður um mikilvægi slíkrar þjónustu. Ráðherra hefur haft uppi stór orð um að efla eigi geðheilbrigðisþjónustu. Þar viljum við í Samfylkingunni sannarlega leggja lið.

Nú stendur til að efla þjónustu Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins í geðheilbrigðismálum sem er löngu tímabært skref en ég spyr hæstv. ráðherra: Er metnaður hennar ekki meiri en svo að loka eigi farsælu og framsæknu úrræði og setja starfsemi Hugarafls í uppnám til að fjármagna breytingar á starfsemi Heilsugæslunnar? Er ekki betra að bjóða upp á meiri fjölbreytni í þjónustunni en að steypa alla í sama mót?