148. löggjafarþing — 18. fundur,  30. jan. 2018.

siðareglur ráðherra.

[13:42]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Í fyrirspurn sinni vísar hann til skriflegs svars frá mér við annarri fyrirspurn hv. þingmanns. Þar kemur fram að í gildandi siðareglum sé það á ábyrgð hvers ráðherra að fylgja siðareglum en hann geti þó leitað ráðgjafar forsætisráðuneytis. Þannig er það í gildandi siðareglum, eins og hv. þingmanni er kunnugt. Ég hef hins vegar sett af stað, eins og hv. þingmanni er líka kunnugt, vinnu við að endurskoða þær reglur sem og reglur um hagsmunaskráningu ráðherra í ríkisstjórn og við að kanna hvort þar megi skýra betur þau viðmið sem við fylgjum, hvort þau megi uppfæra í takt við það sem gerist annars staðar í nágrannalöndum okkar, svo dæmi sé tekið. Sú vinna stendur yfir.

Hv. þingmaður velti upp hverjar afleiðingarnar séu af því ef siðareglum er ekki fylgt og hvert hlutverk forsætisráðuneytisins sé. Í gildandi reglum er það alveg á hreinu að forsætisráðuneytið er fyrst og fremst ráðgefandi, það hefur ekki úrskurðarvald yfir öðrum ráðherrum, þannig að það sé á hreinu og ég svari fyrirspurn hv. þingmanns skýrt.

Síðan má ræða — og það er sígilt umræðuefni og var til að mynda til umræðu á ársfundi Siðfræðistofnunar. sem ég veit ekki hvort hv. þingmaður sat fyrir helgi — hvert eðli siðareglna er, þ.e. hvort eigum við að tala um brot á siðareglum og viðurlög við siðareglum. Er það sú leið sem við eigum að fara? Eða eiga siðareglur að vera þau viðmið sem við í sameiningu, til að mynda á Alþingi, setjum sjálfum okkur í gegnum umræðu sem við eigum um þau og eru þar af leiðandi fyrst og fremst leiðbeinandi fyrir okkur sjálf? Um það eru ólíkar skoðanir meðal siðfræðinga sem hv. þingmaður kannast vafalaust við. Ég held að það sé ekki slæmt að umræða fari fram innan þingheims. Hvernig nákvæmlega sjáum við fyrir okkur siðareglur Alþingis? Teljum við eðlilegt að viðurlög séu við þeim, því að það er almennt ekki þegar horft er til siðareglna hér og þar í samfélaginu?