148. löggjafarþing — 18. fundur,  30. jan. 2018.

siðareglur ráðherra.

[13:46]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Við erum með gildandi siðareglur. Hv. þingmaður kann að vilja að þær siðareglur séu öðruvísi en þær eru, en þær eru í gildi. Þar liggur fyrir í gildandi siðareglum ríkisstjórnar að hver og einn ráðherra ber ábyrgð á að þeim sé fylgt og að forsætisráðuneytið er til ráðgjafar. En ábyrgðin liggur hjá hverjum einstökum ráðherra.

Það eru engin viðurlög í gildandi siðareglum. Það sem ég reifaði í svari mínu er að ekki eigi endilega að vera viðurlög við brotum á siðareglum, að minnsta kosti ekki ef við hlustum eftir því sem þeir siðfræðingar sem fjallað hafa um þessi mál hafa verið að segja um þau, að siðareglur séu fyrst og fremst viðmið sem við eigum samtal um og setjum okkur sjálf. Sú umræða stendur yfir, þ.e. um endurskoðun siðareglna ríkisstjórnarinnar, og hugsanlega væri ekki vitlaust að Alþingi velti fyrir sér hvort þörf væri á að endurskoða siðareglur og reglur um hagsmunaskráningu þingmanna sömuleiðis. En á meðan siðareglur eru í gildi er mikilvægt að við störfum samkvæmt þeim reglum sem eru í gildi á hverjum tíma (Forseti hringir.) þó að ég telji eðlileg að þær verði endurskoðaðar og þeim breytt í kjölfarið.